Það er smá fútt núna, vonandi verður framhald á

Sogið hefur verið líflegt síðustu daga. Mynd er frá Lax-á

Það er svona frekar létt yfir öllum eftir að straumurinn 11-12.7 gekk yfir. Víðast hvar var lax að ganga í straumnum og menn sammála um að vegna kalds vors hefði laxinn gengið seint. Svo sannarlega hefur hann gert það og þrátt fyrir afleitar tölur nú þegar komið er hásumar, þá er þó hreyfing á m´launum og vonandi að þetta haldi bara áfram að batna.

Dagur Garðarsson með 10 punda hæng úr Þjórsá í vikunni. Mynd Siggi Garðars.

Þó að það sé kropp í Rangánum, þá eru tölur þaðan langt frá síðasta sumri, sérstaklega í Eystri Rangá þar sem var algert mok stóran hluta sumars, 319 komnir á land á móti 9070 í fyrra. Að vísu er veitt í ánni langt fram í október og því enn nægur tími ef að laxinn ákveður að sprengja allt með risagöngum. Ytri var mun lakari í fyrra og virðist ekki vera að rífa sig upp. Þó er þar alltaf að koma inn nýr lax þannig að menn halda í bjartsýnina. Á sama tíma eru hluti að gerast hraðar í öðrum landshlutum.

Þokkalegar smálaxagöngur láta nú á sér kræla í Blöndu. Mynd Erik Koberling.

Samkvæmt ýmsum aðilum eru göngur nokkuð kröftugar í Borgarfirðinum og víðar á Vesturlandi sem stendur. Menn hafa meiri áhyggjur samt af öðrum landshlutum. En Erik Koberling, umsjónarmaður Blöndu og Svartár greinir frá því að smálaxagöngur séu að byrja að skipta máli og það hafi komið 10-20 laxa vaktir. Á Suðurlandi voru t.d. 9 laxar í Soginu, bara í Ásgarði, fleiri víðar og lax er farinn að veiðast víðar í Þjórsá heldur en í Urriðafossi.

Samt sem áður er ekki útséð með þetta sumar, dæmi er Langá sem var komin með 154 laxa á miðvikudagskvöld en í fyrra, sem var alls ekki gott sumar veiddust í heild 1086 laxar. Fleiri dæmi eru í sama dúr og þurfum við því að sjá til með þetta og gleðjast á meðan eitthvað er í gangi. Eina svæðið sem gæti samkvæmt tölunum nú, náð síðasta sumri er Urriðafoss, sem gaf alls 971 lax í fyrra en er kominn í 668 laxa. En allt er hverfult og við verðum að sjá til, þessi vertíð hefur verið afar skrýtin og óvenjuleg. Engin leið að sjá fyrir um hvað mun eiga sér stað.

Einn kominn í háfinn í Jöklu, eftir erfiða byrjun er þar nú góður gangur. Mynd er frá Strengjum

Og hvað með Norðausturhornið, við vorum með umsögn í nýlegri frétt um að nokkuð góður gangur væri í Vopnafjarðarárnum, en hvað með Jöklu, sem var óveiðandi í byrjun vertíðar? Þröstur Elliðason segir:  „Eftir að nánast fyrsta vikan datt út vegna flóða hefur gengið mjög vel í Jöklu og nú þegar er áin komin í um 100 laxa. Og lax var fljótlega líka komin upp á efra svæðið Jöklu II en þar fengust t.d. 5 laxar í gær. Megnið er vænn stórlax og margir yfir 80 cm hafa komið á land. Þó er farið að bera á smálaxi sl. daga sem lofar góðu.“

Sem sagt, í augnablikinu lítur allt vel út. Fyrir skemmstu var staðan önnur, þannig að best er að njóta á meðan vel stendur og vona það besta.