Sakkarhólmi, Júlíus H Schopka
Mynd sem Júlíus H Schopka tók við Sakkarhólma í Soginu. Þeir bæta tæplega ástandið, en eru ekki stóri sökudólgurinn.

Afleitt var nú ástandið í Soginu á nýliðinni vertíð og spurning hvort að ekki þurfi að gtaka til hendinni og finna skýringar. Reyndar var laxveiði á Hvítár/Ölfusársvæðinu í heildina séð léleg, Stóra Laxá reyndar alveg bærileg, en þetta var einum of…

Veiðin í Soginu 2017? Fyrst verður að telja að engar tölur eru að hafa úr Syðri Brú, að minnsta kosti ekki að svo stöddu. Hún er leigð einkaaðilum og litlum fregnum fer af veiði. Syðri Brú hefur oft verið drjúgt svæði, en aðal hnallarnir eru Ásgarður og Bíldsfell. „Öðru vísi mér áður brá“ segir orðatiltækið, en Ásgarður gaf í sumar 83 laxa og Bíldsfell 64 laxa. Bætum við heilum tveimur skráðum löxum á Alviðru og þá erum við komin upp í 149 laxa. Enginn var skráður í Þrastarlundi.

Þetta er ömurlegt. 13 stanga á.  Meðalveiðitala áranna 2011 til 2015 er um það bil 242 laxar. Þetta eru ekki svakalegar tölur yfir höfuð og Sogið er fremur skemmd á vegna virkjana og skorts á hrygnarsvæða, en einmitt þess vegna þolið áin lítið áreiti og skakkaföll. Eitt af umræddum árum gaf áin 480 laxa og mörgum finnst að þar eigi áin að vera.

Hvað veldur? Sumir segja selurinn en það er billeg skýring. Selir hafa alltaf verið viðloðandi árnar á þessum slóðum og víðar. Sumir segja að hann haldi laxinum frá því að ganga og éti hann upp, en fyrrum var selurinn talinn reka laxinn upp í árnar.Selir voru í ánni s.l. sumar, bæði niðri á Tannastaðatanga og uppi í á, sáust alveg upp undir Sakkarhólma.  Hvað þá? Ofveiði? Ekkert svar. Netaveiðar í Ölfusá? Gæti verið, en þær hafa lengi verið við lýði og mokað upp laxi.

Þetta er verkefni fyrir kunnáttumenn. Ömurlegt að mögnuð laxveiðiá á borð við Sogið detti niður fyrir 200 veidda laxa.