Jökla komin af yfirfalli og er að gefa vel

Laxá í Jökulsárhlíð, Jökla
Erlendur veiðimaður með 82 cm hrygnu af Jöklusvæðinu fyrr í sumar.

Það er enn að veiðast vel hér og þar, gaman að segja frá því. Þegar við greindum frá því fyrr í sumar að yfirfall væri komið í Jöklu miklu fyrr en vant er voru margir að afskrifa svæðið, en þó veiddist áfram vel í hliðaránum og nú er yfirfallinu lokið og veiðin hefur verið afar góð síðustu daga.

Einn af tíðindarmönnum okkar austanlands sagðist hafa frétt af því að vanir menn hefðu veitt tolf laxa á svæðinu í gær. Þetta voru leiðsögumenn sem voru að slægjast eftir laxi í klak. Hópur sem var á svæðinu um helgina veiddi aðra tólf laxa og gaman að segja frá því að margir þessara laxa voru nýgengnir eða nýlegir, silfurbjartir og ekki til legnir. Svipaða sögu höfum heyrt frá ánum í Vopnafirði.

Jökla var í gærkvöldi komin í 425 laxa og spurning hversu hátt hún hefði náð ef að yfirfallið hefði ekki truflað veiðiskapinn, raunar slegið Jöklu sjálfa af borðinu, í heilar þrjár vikur eða meira.