Gæðum landsins er misskipt….á milli dala!

Efrifoss í Selá. Þar er efri laxastigi Selár. Mynd -gg.

Vatnsleysið á landinu er mikið umræðuefni og á vestanverðu og norðanverðu landinu eru ár svo vatnslitlar að menn muna ekki annað eins svona í byrjun sumars. Þar sem ástandið er verst, kemur það niður á laxveiði. En VoV er í Vopnafirði núna og mótsagnirnar eru svakalegar.

Svo er Vesturdalsá bara ræfill, með sitt stutta vatnasvið og snjóleysi.

Við vorum t.d. að fylgjast með opnun Hofsár í gær. Vatnið í ánni er fallegt og hæfilegt. VoV ók upp með Selá í dag, upp fyrir Efrifoss og yfir vaðið þar fyrir ofan og niður í Vesturárdal. Selá er með gullfallegu vatni, lækir og ár sem í ána falla efra eru allar vatnsmiklar og sprækar, Þar efra eru skaflar úti um allt. Vesturdalsá er hins vegar að skrælna. Munurinn á henni og Selá og Hofsá er skýr. Stóru árnar koma lang að, ofan af hálendinu og hafa bæði skafla og læki til að fóðra sig. Vesturdalsá er ekki svo löng, kemur úr Arnarvatni og hefur þrátt fyrir allt vatnsmiðlun. En vatnið er hrunið, allur snjór löngu farinn. Mikið þarf að breytast til að Vesturdalsá komist í veiðanlegt horf.