Ægissíðufoss, Ytri Rangá
Veitt í Ægissíðufossi í Ytri Rangá.

Niðurstaða er komin í útboðsmál Ytri Rangár og vesturbakka Hólsár. Og það fór á annan veg en búist var við. Stigið var fram hjá lang hæsta tilboðinu og farin allt önnur leið. „Stórtíðindi“ hafa nokkrir leigutakar sagt við VoV í dag og í kvöld.

Sem sagt, veiðifélag Ytri Rangár og vesturbakka Hólsár ákvað að fela Iceland Outfitters að selja svæðin í umboðssölu. Útboð á dögunum hafði skilað mörgum tilboðum. Það hæsta var frá Hreggnasa og var það hátt að eiginlega allir bjuggust við að því yrði tekið. Þar hækkaði ársleigan úr 125 milljónum í 143 milljónir fyrir Ytri og 25 milljónir í viðbót fyrir Hólsá, veiðihúsið innifalið.

Enginn bjóst við þessari niðurstöðu, en hún liggur nú fyrir. Iceland Outfiters er fyrirtæki Hörpu Hlínar Þórðardóttur og Stefáns Sigurðssonar. Þau eru þaulvön á þessu sviði, unnu áður bæði hjá Lax-á en fóru síðan í eigið fyrirtæki.