Sigurður Pálsson með fluguboxin. Myndina tók Stefán á Vísi.

Einn helsti nestor fluguveiða á Íslandi er farinn yfir á hinar óræðu veiðilendur. Eflaust verður hann fengsæll þar eins og hér. Sigurður Pálsson, Siggi Páls, er fallinn frá.

Flæðarmúsin.

Við félagarnir á VoV nutum ekki þeirrar gæfu að kynnast Sigga Páls en það gerðu margir aðrir og voru einróma um mannkosti hans og snilld, bæði á árbakkanum og við væsinn, en Sigurður var snillingur í fluguhnýtingum og eftir hann liggja ýmsar fengsælar flugur. Upp í kollinn skjótast strax t.d. Flæðarmúsin sem var upphaflega hnýtt fyrir sjóbirting sem Sigurður hafði sérstakt dálæti á að eltast við. Seinna kom á daginn að sjóbleikjan er einnig sólgin í Flæðarmúsina og margur laxinn hefur einnig fallið fyrir henni. Seinna var hnýtt svart afbrigði af Flæðarmúsinni og ekki er hún mikið síðri. Dýrbíturinn er önnur hugarsmíð Sigurðar og virkar einstaklega vel, sérstaklega fyrir sjóbirting og staðbundinn urriða. Svona mætti áfram telja.

VoV þakkar Sigurði fyrir framlag sitt til fluguveiða og hnýtinga á Íslandi yfir áratugina. Og VoV vottar fjölskyldu og vinum Sigurðar samúð sína.