Vatnsá, Frúarhylur
Frúarhylur í Vatnsá. Þarna er lítið vatn í ánni, en er nú mun minna. Mynd -gg.

Enn á eftir að opna formlega eina laxveiðiána, Vatnsá sem er með opnun 25.júlí. Það er ekki að ástæðulausu að áin er opnuð svo seint, lax gengur yfirleitt mjög seint í hana. Hann er þó kominn óvenjulega snemma nú, það sannaðist þegar umsjónarmaður árinnar fór í „tilraunaveiði“ um helgina.

 

Vatnsá Ásgeir Þór
Einn flottur úr „tilraunaveiðiferðinni“ í Vatnsá um helgina.

„Þetta er óvenju snemmt en hefur þó gerst áður. Það er kominn slatti af stórlaxi í Frúarhylinn og það var einnig lax í Svörtuloftum og þar fyrir neðan. Landaði fjórum löxum, upp í 83 cm. Einnig komu vænir birtingar. Það er mjög gott vatn í ánni eftirvætutíðina og margir staðir „inni“ eins og sagt er. Maður veit aldrei hvað gerist, 2016 var t.d. óvænt mikið stórlaxaár en vonandi að smálaxinn verði sterkur þetta árið. Þetta allavega lítur mjög vel út,“ sagði Ásgeir Ásmundsson umsjónarmaður árinnar í samtali við VoV.

 

Fram að 25.júlí eru seld silungsveiðiholl í Heiðarvatn og hafa þær stangir aðgang að veiðihúsinu. Afar lífleg veiði hefur verið í vatninu allt frá því að veiði hófst þar í vor. Þar er bæði urriði og bleikja og sjóbirtingar tíðir sem meðafli, og farið að bera á þeim, auk þess sem stöku lax veiðist þar einnig.