Hnúðlax, Hólaá, Robert Novak
Robert Novak á þessa mynd af hnúðlaxi sem félagi hans veiddi í Hólaá við Laugarvatn sumarið 2017..

Það kom oft fram í fréttum í fyrra að hnúðlax væri að veiðast út og suður í ám og vötnum hér á landi. Meira en áður og fleiri laxar, veiðimaður einn tók sex í beit í hyl í Bakkaá í Bakkafirði. Nú hefur komið á daginn að tegundin er byrjuð að reyna landnám….

Í bráðabirgaðskýrslu sem birtist nýlega í fréttabréfi LV og er a framfæri Guðna Guðbergssonar hjá Veiðimálastofnun segir m.a. um þetta:  „Sumarið 2017 veiddust óvenju margir hnúðlaxar í íslenskum ám. Hnúðlax er af tegund kyrrahafslaxa sem fluttir voru til Kolaskaga í Rússlandi á árunum um 1960 þar sem þeim var sleppt til hafbeitar. Alls hafa verið skráðir 66 veiddir hnúðlaxar hér á landi sumarið 2017 og komu þeir fram í ám í öllum landshlutum. Á Kolaskaga í Rússlandi og í Norður-Noregi eru nú komnir hrygnandi stofnar hnúðlaxa sem einkum er að finna á neðri svæðum áa. Vart var við hrygningu hnúðlaxa í ám hér á landi síðasta sumar en hrygningartími hnúðlaxa er frá síðari hluta júlí til september. Ekki er vitað hvort þessi tegund komi til með að nema hér land né hvaða áhrif hún kann að hafa. Mikilvægt er að fylgjast vel með því en meira er jafnan af hnúðlaxi þegar ártalið stendur á oddatölu en jafnri tölu.“

Það var og. Þegar talað er um að hnúðlaxinn sé aðeins á neðri hluta vatnasvæða, þá er göngusvæði hans samt sem áður býsna langt, þannig veiddi silungsveiðimaður hnúðlax í Hólaá í Biskupstungum s.l. sumar….samkvæmt því geta þeir gengið ansi langt inn í land og hrygnt.