Myndin sem prýðir dorgveiðisíðuna nýju, vænn urriði.....

Það er alls endis óþarfi að hætta að veiða silung þó að vetur gangi í garð. Af og til hafa menn rifið sig upp og freistað þess að benda mönnum á að ef að þeir eru til í smá kulda og trekk, sé hægt að veiða silung niður um ís.

Cezary Fijalkowski, sem er einn öflugasti fluguveiðimaður landsins hefur stofnað hóp á Facebook sem heitir Dorgveiði/Ice Fishing Iceland. Þar ætlar Cezary að koma af stað umræðum um dorgveiði og dorgveiðimöguleika hér á landi, en þeir eru að sjálfsögðu algerlega ótæmandi. Algengast er að dorgveiði sé stunduð hér á landi þegar líða tekur á veturinn og birtu gætir í vaxandi mæli með hækkandi sól. Dorgveiði fer fyrst og fremst í stöðuvötnum, en dæmi eru um að slíkar veiðar hafi verið stundaðar á ám, t.d. á neðsta hluta Norðurár fyrr á árum. Þá var mikil og góð bleikjuveiði í ánni, en því er ekki að heilsa lengur.

Cezary stofnaði hópinn rétt í vikunni og í dag voru félagar orðnir 27 talsins. Umræður hafa ekki komist á neinn skrið enn sem komið er, en þess verður vart langt að bíða og verður fróðlegt að fylgjast með því að eflaust stendur það þessu sérstaka sporti nokkuð fyrir þrifum að jafnvel þótt að menn séu alvanir stangaveiðimenn þá er dorgveiðiheimurinn svo mörgum framandi.

Erlendis er víða rík dorgveiðihefð, svo mjög að víða, eins og t.d. á Vötnunum Miklu á mörkum Bandaríkjanna og Kanada, hafa menn komið sér upp veiðiskúrum á skíðum. Það eru vel einangraðir kofar með gati í gólfi til að hægt sé að athafna sig með borinn. Margir hafa glugga á kofum sínum og hillu og/eða borð fyrir hitagræjur og kaffikönnu. Fræg er sagan um veiðimann einn á þessum slóðum sem hafði alltaf Labradorinn sinn með sér. Holurnar hjá þessum köppum eru stórar því oft er fiskurinn stór sem kemur á krókinn. Veiðimaður þessi setti í stóra geddu og labbinn varð svo æstur að hann steypti sér ofan í holuna og hvarf sjónum, en eftir stóð eigandi hundsins gersamlega lamaður. Hundurinn horfinn.

En stuttu seinna heyrðust fárleg óp og læti skammt frá þar sem annar veiðimaður sást ryðjast útúr kofa sínum, svartur Labrador, trylltur til augnanna, hafði ruðst uppúr holunni hjá honum og brotið þar allt og bramlað í æðiskasti. Hann fann ekki sína holu sem sagt, en hann fann þá næstu og innan tíðar féll allt í ljúfa löð á ný.