Þarna er verið að berja krapa af laxakistu við Hvammslækjarhyl í Vesturdalsá. Mynd GÁ.

Haust- og vetrarverkin eru ýmisskonar við veiðiárnar, í Vopnafirði er til dæmis verið að fást við hrognagröft, sem er laxræktaraðferð sem vaxið hefur fiskur um hrygg síðustu árin. Það er mikið hark að standa í þessu fyrir austan þessa daganna, harðsvíraðasta vetrarveður herjar á mannskapinn.

„Þetta er óvenjulega erfitt veður miðað við árstíma,“ dæsti Gísli Ásgeirsson í kvöld, nýkominn í hús eftir erfiðan dag þar sem menn voru að störfum við Vesturdalsá í hríðarbyl, frosti og skafrenningi, en hrognagröftur er stundaður í öllum Vopnafjarðaránum og á morgun liggur leiðin í Selá.

Frá Vesturdalsá í dag, myndin sýnir skilyrðin sem unnið er við. Mynd GÁ.

Hrognagröftur er nákvæmlega það sem lesa má úr orðinu, frjóvguð hrogn eru grafin á heppilega staði þar sem hægt er að nýta hagstæð búsvæði sem ekki hafa verið nýtt, eða verið illa nýtt til þessa. Laxi er safnað í kistur á veiðitíma, kreistur um haust og hrognin síðan grafin í heppilegan botn með tækni sem ekki verður farið nánar útí hér. Gjarnan eru valdir lækir og hliðarkvíslar og einnig eru hrogn grafin ofan við ólaxgenga fossa. Það var Bjarni Jónsson fiskifræðingur sem fyrstur hóf þessa laxrækt fyrir allnokkrum árum og hafa menn einkum séð góðan árangur í ám á borð við Húseyjarkvísl og Miðfjarðará. Bjarni sami í fyrstu við Veiðifélag Hofsár til tíu ára, að koma þessu á í Hofsárdal. Nú er búið að útvíkka verkefnið í Vopnafirði og er það einn liður af mörgum hjá eigendum þar að styrkja villta laxastofna.