Silinugr, sjóbirtingur, Veiðikortið
Víða má veiða fallega silunga. Mynd -gg.

Námskeið í veiðileiðsögn hófst miðvikudaginn 6 mars en það er Ferðamálaskóli Íslands býður upp á þetta námskeið fyrir áhugasama aðila sem vilja gerast leiðsögumenn innlendra og erlendra veiðimanna í ám og vötnum landsins. Skólastjóri er Friðjón Sæmundsson, en hann nýtur aðstoðar og þekkingar fjölda sérfræðinga

Friðjón Sæmundsson
Friðjón Sæmundsson skólastjóri

Friðjón sagði í skeyti til VoV að alls hefðu 25 aðilar skráð sig, 22 heima við, en þrír í fjarnámi, þar af einn frá eyjunni Aruba! Friðjón sagði: „Mikill áhugi er á meðal veiðileyfissala um að leiðsögumenn við ár og vötn séu búnir að fara í nám þar sem þeim gefst tækifæri að tileinka sér alla þá þætti sem einkenna þarf góðan leiðsögumann. Veiðileiðsögunámskeiðið er sniðið að því markmiði að þekkingin sem það skilar til þátttakenda geri þeim auðveldara fyrir að uppfylla vonir og væntingar veiðimanna, erlendra jafnt sem innlendra. Ferðamálaskóli Íslands hefur nú í fyrsta skipti hér á landi skipulagt nám fyrir þá sem vilja leggja veiðileiðsögn fyrir sig og aðra áhugasama veiðimenn sem vilja uppfæra þekkingu sína á þessu sviði.“

Námskeið hófst á kynningu námsefnis en það var Reynir Friðriksson, sjávarútvegsfræðingur sem fór vel í gegnum það sem framundan er. Í kjölfarið kom Árni Snæbjörnsson, framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga og hélt erindi um starfsemi Lv. Að lokum hélt Björn Theodórsson, fiskeldisfræðingur erindi um sögu stangveiða og nytjar.

Þetta eru all nokkrar kennslustundir og framundan eru m.a. kennslustundir/fyrirlestrar sem heita eftirfarandi:

Fiskirækt (Þröstur Elliðason)

Íslenskir ferskvatnsfiskar í sjó og ferskvatni, líffræði/vistfræði/lífshættir (Jóhannes Sturlaugsson)

Urriði og bleikja, hagnýtar sögur um lífshætti fiska frá Þingvallavatni og víðar (Jóhannes Sturlaugsson)

Aflameðhöndlun og grunnatriði líffræði og veiða sem koma við sögu veiðileiðsagnar í fersku vatni og sjó og tækifæri þessu tengd (Reynir Friðriksson)

Leiðsögumaður og viðskiptavinur. Trúnaður og hegðun gagnvart öðrum leiðsögumönnum og viðskiptavinum (Jóhannes Hinriksson)

Skyndhjálp (Kristinn Ingi Helgason)

Og fleira og fleira, það er meira að segja heil helgi í veiðihúsi Ytri Rangár þar sem farið er yfir búnað og fluguköst, auk kvöldvöku þar sem Jón Skalfir stýrir veiðisögum. Fleira mætti nefna, en skoða má nánar á www.menntun.is