Einn ósáttur.

Veiði hófst víða í dag þrátt fyrir virkilega andstyggilegt veður og var allur gangur á því hvað gekk á, allt frá því að vera frábær veiði yfir í að ekki var hægt að opna vegna ísalaga. Dæmi um frábæra veiði var Leirá, dæmi um algjört vindskot var Geirlandsá sem var öll á ís í Ármótunum.

Ungir veiðimenn með glæsilegan birting úr Eyjafjarðará.

Opnað var fyrir veiði á neðstu svæðum Eyjafjarðarár í dag og þrátt fyrir veðurskítinn voru fréttir þaðan: Guðrún Una, formaður SVAK sagði: „Þessir ungu menn (á myndinni)  voru “að störfum” á svæði 1 í morgun og létu snjókomu og kulda ekki aftra sér frá því að setja í- og landa þessum glæsilega 75cm sjóbirtingi og eru þar með komnir á blað á þessu veiðisumri.“ Sjóbirtingur hefur verið í mikilli sókn í Eyjafjarðará síðustu árin.

Syðri Hólmi í Tungufljóti í dag.
Fallegur birtingur úr Tungufljóti í dag. Myndir frá Tungufljóti eru frá Sigurði Marcusi.
Vetrarlegt á bökkum Tungufljóts
Tungufljót í dag, losað úr stórfiski.

Sigurður Marcus Guðmundsson sem var að opna Tungufljót sagði að skilyrði hefðu verið erfið, hvasst, afar kalt en samt var búið að landa sex vænum birtingum nú í byrjun kvölds. Í Geirlandsá var ekki hægt að veiða, ís yfir Ármótunum þar sem vorveiðin fer að jafnaði alfarið fram.

Í Leirá í Leirársveit var mögnuð veiði, á fjórða tug birtinga voru dregnir á land og sleppt aftur. Margir voru stórir, þeir stærstu yfir 80 cm. Leirá er kannski besta dæmið um hvað V&S skilar í sjóbirtingsám. Frá því að IO tók ána á leigu fyrir þremur árum hefur sú nýjung verið að öllum fiski er sleppt. Það skilar sér í fleiri gömlum drjólum sem ná yfirstærð.Veiðin í ánni í dag var kannski hvað mögnuðust í ljósi þess hversu skilyrði voru erfið. Línur frusu í lykkjum. Mest veiddist með andstreymisveiddum púpum.

Harpa Hlín með einn af stórfiskunu
Jóhannes Hinriksson með urriðann hrikalega, staðbundinn, úr Ytri Rangá, ríflega 80 cm og ríflega 14 punda!

Veiði byrjaði einnig í Ytri Rangá og Jóhannes Hinriksson umsjónarmaður árinnar var meðal þeirra sem opnuðu. Meðal fiska sem veiddust var hrikalegur staðbundinn urriði, yfir 80 cm, spikfeitur. Gein yfir Black Ghost.