Axel Björn Clausen með 104 cm tröll úr Dalsárósi síðast liðið haust.

Það er alltaf smá veisla þegar Ragnar Gunnlaugsson kenndur við Bakka í Víðidal sendir okkur grúsk sitt úr veiðibókum Víðidalsár og Fitjár. Þó að vertíðin hafi verið slök þetta árið er alltaf gaman að rýna í tölurnar og sjá hvernig málin lágu fyrir.

Skoðum þetta. Sem fyrr segir var vertíðin slök í ánum eins og svo víða annars staðar á landinu. Heildar laxveiðin var aðeins 449 laxar. Víðidalsá sjálf gaf þar af 366 og Fitjá aðeins 82 laxa. Einn lax var óstaðsettur. Einn veiðistaður bar af svo um munaði. Það var hinn frægi Dalsárós sem gaf alls 96 laxa..

Silungsveiði var að venju góð enda er Víðidalsá sérlega öflug silungsveiðiá. Þar veiðist sjóbleikja, sjóbirtingur og staðbundinn urriði. Laxasvæðið gaf 314 bleikjur og 105 urriða. Silungasvæðið gaf 427 bleikjur og 123 urriða. Ekki kemur fram hversu margir urriðar eru sjógengnir og hve margir staðbundnir, en á silungasvæðinu má gera ráð fyrir að mest sé um sjóbirting að ræða. Alls gerir þetta 741 bleikju og 228 urriða. Eða samtals 969 silunga. Þá var neðstu laxveiðistöðum árinnar bætt við silungasvæðið til að gera það meira spennandi, eins og það þyrfti, og veiddust alls 27 laxar í þeim hyljum. Lang besti silungsveiðistaðurinn var á silungasvæðinu og heitir Kvíslar breiða, en þar veiddist alls 341 silungur, 285 bleikjur og 56 urriðar.

Meðalvigtin samkvæmt útreikningum Ragnars er 4,4 kíló, eða rétt tæp 9 pund. Ragnar miðar allt við kvarða Hafró í úttektum á þyngd laxa. Alls voru 9 laxar á bilinu 10 til 11,2 kiló og laxar frá 78 cm og 5 kílóum upp í 104 cm, 11,2 kíló voru alls 165 talsins. 2 og 3 ára laxar, frá 3,6 kílóum og uppúr voru 229, en eins árs laxar úr sjó, smálaxar 219 talsins.

Alls var 392 löxum sleppt aftur, eða 87% og hefur prósentutalan aldrei verið hærri. Talan hefur verið á uppleið en hversu há hún er helgast mögulega að einhverju leyti á því að lítið var af laxi í ánni og menn því fúsari að hirða ekki einn eða tvo, sleppa þeim frekar.