Við ætlum að halda okkur við Halldór Halldórsson matreiðslumeistara og bókina/bæklinginn hans Réttir úr ríki Vatnajökuls. Hann er með geggjaða uppskrift að bleikju, sem auðvitað má heimfæra yfir á lax, urriða og/eða sjóbirting. Að okkar mati er það besta við hana, fyrir utan hvað hún er frábær, er hversu einföld hún er.
Þetta er réttur sem heitir sojaristuð Jöklableikja, Jöklableikja var (og er kannski enn) framleidd á Hala í Sðursveit. Sú framleiðsla hófst 1998. Við reyndum þennan rétt bæði með sjóbleikju að vestan (Skálmardalsá) og staðbundinni bleikju úr Heiðarvatni í Mýrdal. Það skipti ekki máli hvort að fiskurinn var staðbundinn eða sjógenginn.
En svona er efnisyfirlitið og miðast uppskriftin við fjóra:
800 grömm silungsflök
1 dl sojasósa
Grænmetisblanda:
4 stórar gulrætur
1 blaðlaukur
2 rauðar paprikur
½ hvítkálshaus
Salt og pipar
Svona er þetta síðan í praxís: Flökin eru beinhreinsuð og snyrt og sett í plastpoka. Í pokann fer líka sojasósan. Síðan er pokinn látinn liggja í hálftíma þannig að sósan marinerist í kjötið. Á meðan að beðið er, er upplagt að fara í grænmetið. Eftir umræddan hálftíma eru flökin tekin og þerruð. Siðan eru þau skorin niður í þá bitastærð sem eldendur óska. Síðan er pannan hituð og höfð á frekar vægum hita, því ella getur sojasósan brunnið. Hér viljum við bæta við að við höfum prófað þessa uppskrift með því að hafa teríakísósu og það kom býsna vel út líka.
Grænmetið er líka pönnusteikt og það þarf smá tíma vegna þess að samkvæmt uppskriftinni á það að vera frekar gróft. Við vildum hins vegar hafa það smærra skorið ogsaltað með salti og pipar. Það gengur hraðar.
Halldór mælir með hrísgrjónum eða couscous og nefnir einnig til sósur sem að nefndar eru í bæklingnum. Um það vitum við ekki, við notuðum „léttsósu“ með graslauk og hvítlauk sem fæst í Bonus.

Svo er það vínið sem passar hvað best við þennan rétt og yfirleitt alla sem að snúast um bleikan fisk, Castillo De Molina :
BRAGÐLÝSING
Ljóssítrónugult. Meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Ljós ávöxtur, sítrus, pera, eik.
BRAGÐFLOKKUR: MEÐALFYLLT OG ÓSÆTT
Hér er að finna ýmsar þrúgutegundir, svo sem léttari Chardonnay, Sauvignon Blanc og Riesling. Fjölbreytt vín sem sum hafa verið látin þroskast í tunnu en önnur ekki. Mörg vín í þessum flokki er hægt að geyma í nokkur ár.