Þjórsá, Urriðafoss, Iceland Outfitters, IO
Kunnugleg sjón við Urriðafoss í Þjórsá síðustu tvö sumur . Myndin er fengin af FB síðu Iceland Outfitters, IO.

Ævintýrið heldur áfram á Urriðafosssvæðinu í Þjórsá, mánudagurinn gaf tuttugu laxa á tvær stangir og höfðu þá veiðst þar 145 laxar á tólf dögum. Og á aðeins tvær stangir. Þetta eru svakalegar tölur.

Hins vegar mun netaveiði nú færast í vöxt í Þjórsá, en frá og með í gær settu nokkrir landeigendur niður netin sín. Netadagar eru þriðjudaga til föstudaga. Hins vegar hafa þau hjá IO, leigutakar stangaveiða á svæðinu, náð skemmtilegu samkomulagi við landeigendur við Urriðafoss, en upphaflega átti einungis að stangaveiða svæðið utan netadaga. En í fréttatilkynningu frá IO segir m.a. þetta:  „Iceland Outfitters og landeigendur að Urriðafossi hafa í sameiningu ákveðið  að kippa upp aðal netalögnini í Urriðafossi sjálfum svo hægt sé að veiða þar á stöng en Urriðafoss stoppar nánast allan fisk sem gengur uppí Þjórsá. Þetta er svona eitt af fyrstu skrefum í að búa til og breyta þessu mikla veiðisvæði úr netaveiðisvæði í stangveiðiparadís. Enn verða lagnir bæði fyrir ofan og neðan Urriðafoss á umræddum dögum en okkar markmið er að láta stangveiðina taka við af netaveiðinni, sem líklega mun gerast innan fárra ára miðað við frábærar viðtökur og gang stangveiðinnar.“

Ef veiðitalan er krufin aðeins, þá eru að veiðast rétt ríflega12 laxar á dag að jafnaði á tvær stangir. Það er frábær meðalveiði á stöng. Þó að talsvert sé veitt á maðk, er einnig góður slatti veiddur á flugu. Spónn er bannaður sökum kraðaks af laxi, það væri stórhætta á húkki í hverju kasti.