Þetta er Pavel Czumaj með rosalega hrygnu, sjá má skilin greinilega fyrir utan. Myndin er úr safni Cezary.

Óhemju góð veiði hefur verið víða á sjóbirtingsslóðum að undanförnu, mörg skot og flott. Ekki á það síst við um Vatnamótin þar sem Fossálar, Hörgsá og Geirlandsá bætast í Skaftá. Þar hefur bókstaflega verið mok að undanförnu.

Thomasz Skurski með rígvæna hrygnu.

„Jú við vorum í Vatnamótunu og það var mok,“ sagði Cezary Fijalkowski í skeyti til okkar, en hópur sem hann var í forsvari fyrir fyrir skemmstu landaði 70 birtingum og missti annað eins. Mikið var um mjög stóra fiska og þeir stærstu 86 cm, sem yfirleitt má skilgreina sem 16-18 punda.

Falleg mynd frá Vatnamótunum þar sem vatnaskilin sjást greinilega. Mynd Cezary Fijalkowski.

Þessi mikla veiði í Vatnamótunum, komið vel fram í október, segir nokkra sögu. Mikil uppsveifla hefur verið í sjóbirtingi síðustu ár og menn alltaf að spyrja sig hvenær toppinum sé náð. Fyrrum var hægt að hitta á veiði í Vatnamótunum í október en oftar en ekki var þá um að ræða göngur geldfiska. Allur þessi stóri birtingur sem er þarna að gaufa á eftir að ganga í Fossála, Geirlandsá, Hörgsá og sjálfsagt Tungulæk líka þó að hann komi út í Skaftá ofar. Allar þessar ár hafa verið að gefa vel í haust, en eiga eftir að fá þessa innspýtingu, því væntanlega á mest af þessum fiski eftir að skila sér í heimaána.