Garðar Örn Dagsson veiddi þessa fellegu 80 cm frú í Eystri Rangá fyrir skemmstu, áin er með hæstu veiðitöluna yfir landið. Hrygnan fór rakleiðis í kistuna í bakgrunninum, að myndatöku lokinni. Myndina tók líklega Sigurður Garðarsson.

Á sama tíma og vel gengur á endasprettinum í sjóbirtingsánum virðist vera slokknað á þeirri litlu laxveiði sem enn er í boði. Vikutölur sem angling.is birtu þann.9.10 s.l. sýna það í það minnsta, en verið getur að lítil sókn í veiðileyfin spili þar rullu.

Það eru eiginlega allar laxveiðiár nú lokaðar, aðeins veitt í Rangánum, Affalli og Þverá í Fljótshlíð. Vel má vera að tvær þær síðastnefndu hafi lokað, en talan em birt var á angling.is fyrir þær báðar voru ekki kynntar sem lokatölur. Veiði í öllum þessum ám byggir á sleppingu gönguseiða sem kunnugt er, hrygning í þeim gengur illa vegna hitastigs og botnlags, þess vegna er leyft að veiða í þeim jafn lengi og raunin er.

Eystri Rangá var og er með hæstu heildartölu yfir landið, þó alls ekki bestu meðalveiðina pr stöng. Veiðivikan sem lauk 9.10, eða síðasta miðvikudag, var þó frekar slök, aðeins 47 laxar komu á land sem skilaði heildarveiðinni 3025 laxar. Það er ekki lokatala en alls veiddust í ánni í fyrra 3960 laxar.

Þetta var enn daufara í Ytri Rangá sem er langt frá sínu besta þetta árið, situr þó í 2.sæti heildartölulistans og á það sæti skuldlaust 2019. Vikan gaf þó aðeins 18 laxa sem færði heildartöluna upp í 1644 laxa. Það er ekki lokatala, en til samanburðar var heildarveiðin í fyrra 4032 laxar. Þetta er umtalsverð niðursveifla í báðum ánum, en aðstandendur Eystri Rangá eru líklega sáttari en félagar þeirra vestar í sýslunni.

Affall var dræmt með aðeins sex laxa á land og þá heildartölu uppá 320. Talan er ekki merkt sem lokatala, en þetta er mikil niðursveifla frá í fyrra þegar heildarveiðin var 872 laxar.

Sama gildir um Þverá, þann 9.10 var gefin upp 142 laxar í heildina og var vikan með engan lax. Mögulega búið að loka þar, en heildartalan er þó ekki merkt sem lokatala.