Jökla
Hér er erlendur veiðimaður með 90 cm hæng úr Jöklu! Myndina tók Árni Kristinn Skúlason.

Jökla hefur gefið með ágætum og nú í lok mánaðar var besti dagurinn á sumrinu þegar 24 laxar náðust á land. Fiskur er að ganga og efri svæði Jöklu hafa einnig verið góð að undanförnu. Stórir laxar eru tíðir í aflanum, allt að 90 cm fiskar hafa komið á land og ævintýri hafa verið, m.a. mölbraut stórlax stöng veiðimanns, en náðist samt….

Þröstur Elliðason lýsti besta deginum með þessum hætti á FB: „Besti dagur sumarsins á Jöklusvæðinu var í dag (29.7)) þegar að veiðimenn náðu 24 löxum á land. Stærstur af þessum löxum var glæsilegur 90 cm hængur úr veiðistaðnum G-streng og alls voru sjö laxar 80-86 cm og þrír laxar 75-76 cm, hreint út sagt frábær dagur. Einn stórlaxanna braut veiðistöng veiðimanns í veiðistaðnum Hólaflúð og þurfti að handþreyta hann í háfinn, mikið um ævintýri á Jöklusvæðinu í dag. Meðal annars fengur tvær stangir sem voru að veiðum á Jöklu II sem er efra svæðið 10 laxa því göngurnar eru að rjúka upp Jökuldalinn þessa dagana!

Snævarr Örn Georgsson var leiðsögumaður erlends veiðimanns sem að brosti í gegnum tárin eftir að boltafiskur mölbraut gamla antík bambusstöngina, en fyrir nánast kraftaverk náðist samt í háfinn fyrir rest. Snævarr segir frá:  „Hann mölbraut stöngina og rétti úr krókunum en á einhvern ótrúlegan hátt endaði laxinn einhvern vegin í háfnum. Sátum titrandi á bakkanum eftir þennan ótrúlega bardaga og ég hef aldrei séð veiðimann jafn glaðan með að hafa brotið stöngina sína!  Hvernig fór þetta svona? Gömul stöng, tekið mjög fast á fiskinum og það þurfti að handþreyta hann inn og þá var hann bara tosaður inn með miklu afli þegar það gafst „nú eða aldrei“ tækifæri. Það er mjög hvöss sylla sem að laxinn kemst undir og þess vegna stóð veiðimaðurinn nálægt ánni til að skera ekki tauminn á syllunni. Tók svo einfaldlega of mikið á fiskinum og stóð og nálægt honum þannig að stöngin fór í öfugt U. Við munum báðir lifa á þessu í langan tíma og ég gæfi mikið fyrir að eiga hamaganginn og lætin á myndbandi.“