Mikið tröll dregið úr Fnjóská

Hér er sá stóri úr Fnjóská í morgun, stórglæsilegur hængur. Myndin er fengin af FB síðu aðdáenda Fnjóskar

Í morgun veiddist stærsti lax sem við höfum haft spurnir af það sem af er þessu sumri. Má gjarnan leiðrétta okkur ef að rangt reynist. En fiskurinn var dreginn úr Fnjóská og var mældur 97 cm með 54 cm ummál.

(Uppfærsla): Þorsteinn Hafþórsson gerði rétt áðan það sem við báðum um, að vera leiðréttir ef að stærri lax en umræddur 97 cm úr Fnjóská hefði verið dreginn. Þeir eru reyndar tveir stærri, 98 cm, báðir úr Blöndu.

Það voru þeir Ólafur Ágúst Jensson og Ásgeir Már Ásgeirsson sem að voru saman á ferð. Sáu þeir laxa víða, en settu svo í þennan dreka á Hellunni. Eftir hálftíma glímu var fiskinum landað og hann mældur 97 cm og 54 í ummál eins og áður segir. Myndina fengum við af FB síðu aðdáenda Fnjóskar. Þar er að finna fleiri myndir, en nokkrir laxar hafa veiðst í ánni síðustu daga og þó áin teljist vatnslítil á eigin mælikvarða, þá er meira en nóg vatn þarna til að laxinn hikar ekki við að ganga.