Tungufljót, ein af frægari sjóbirtingsám landsins, vaknaði af blundi við að rigna tók fyrir um viku síðan. Lítið hafði verið að frétta úr ánni í allt sumar, en hún er líka kannski þekkt fyrir að fiskur kemur seint í hana, þó að ekki sé það einhlýtt.
Einar Lúðvíksson, umsjónarmaður Eystri Rangár, Affals og Þverár, er einnig leigutaki Fljótsins og hann sagði: „Tungufljótið er búið að vera arfaslakt í sumar en það er ekkert stundað, aðeins rétt skroppið, en eftir að fór að rigna þá varð allt vitlaust og fyrsta hollið fékk 17 fiska í dag á 2 stangir og mjög óvanir veiðimenn.”
Þetta eru magnaðar fréttir, ekki hvað síst vegan þess orðspors sem fer af Fljótinu sem mikil haustveiðiá. Að svona kröftugar göngur komi á meðan enn er ágúst (þó að lítið sé eftir af þeim mánuði) lofar afar góðu fyrir framhaldið.
            
		








