
Það er nú bara þannig að spár fiskifræðinga um að 2019 gæti orðið „boom“-ár í hnúðlaxagöngum í íslenskar ár virðast vera að ganga eftir. Fréttir berast hvaðanæva af því að hnúðlaxar komi á land, séu jafnvel fleiri í aflanum heldur þær tegundir sem eru náttúrulegar og lagt upp með að veiða. Búast má við fleiri fregnum og eflaust eru ekki öll kurl komin til grafar.

Á FB síðu Eyjafjarðarár er eftirfarandi status nýkominn: „Svona var veiðin hjá Snævarri Erni á svæði 1 í gærmorgun. 2 Kyrrahafslaxar (Hnúðlaxar) og 1 Atlantshafslax komu á land en talsvert hefur borið á báðum þessum tegundum í ánni upp á síðkastið. Efst er hnúðlaxahængur sem er nýgenginn í ána og því ekki kominn með kryppuna (hnúðinn) sem hann dregur nafn sitt af. Í miðjunni er svo hnúðlaxahrygnan og neðst er svo lax eins og við eigum að venjast. Við viljum vinsamlegast beina þeim tilmælum til veiðimanna að hirða alla hnúðlaxa sem nást á land.“
Svo mörg voru þau orð. Sönn saga fylgir hér. Sönn, já, þó að ekki fylgi henni staður eða nafn. En veiðimaður einn var í á „fyrir vestan“ fyrir skemmstu, landaði fyrst fallegum nýgengnum alvöru laxi. Setti síðan í hnúðlax. Við skoðun kom í ljós að fleiri slíkir voru í hylnum og linnti veiðimaður ekki látunum fyrr en hann var búinn að hreina fullkomlega til í hylnum. Fylgdi sögunni að fimm hafi legið á bakkanum er upp var staðið, sumir hrygndir, aðrir komnir að hrygningu.