Sjávarfoss, Elliðaárnar
Boltalax að stökkva fossinn í Elliðaánum. Mynd Heimir Óskarsson.

Það er aðeins búið að opna örfáar laxveiðiár, en það styttist í þær næstu. Alls staðar er viðkvæðið það sama. Þær sem hafa opnað hafa allar verið líflegar og þær sem ekki er búið að opna hafa allar verið að „fyllast af laxi“, eins og sagt er þegar sést til göngu….

Urriðafoss, Þjórsá, Iceland Outfitters
Mynd frá Iceland Outfitters sem sýnir að smálax er nú orðinn áberandi í aflanum í Urriðafossi í Þjórsá.

„Það er kominn lax upp um alla Vatnsdalsá og fyrsti laxinn kom á land fyrir nokkrum dögum á silungasvæðinu, stór og falleg hrygna. Við opnum þann 20.júní og þetta verður vonandi líflegt,“ sagði Pétur Pétursson í samtali við VoV í dag en hann er leigutaki Vatnsdalsár.

Við heyrðum líka í Orra Vigfússyni í dag og sagði hann talsvert vera af laxi í Bjargstreng neðan við Æðarfossa og mest væru það boltalaxar. All nokkuð er síðan að menn sáu laxinn fyrst neðan fossa og því öruggt að reytingur sé kominn víða í ána.

Langá opnar líka þann 20.júní og leigutakinn SVFR birti það sem félagið kallaði „tíser“ á vefsíðu sinni þar sem fram kom að á örskömmum tíma hefðu 90 laxar farið í gegnum teljarann í Skuggafossi, sem er skammt frá sjó og 60 þeirra hefðu verið stórlaxar. Þá var einn strax farinn upp teljarann í Sveðjufossi sem er langt inni á dal og afmarkar hið svokallaða „Fjall“.

Þá hafa áhugamenn um Elliðaárnar fylgst með göngum koma inn á Neðri og Efri Breiðu. Menn hafa séð laxinn líka í Sjávarfossi, en það hefur verið ansi mikið vatn í ánni. Áin byrjar líka í kringum 20.júní, líkt og Laxá í Kjós(19.6), en langt er síðan að fyrstu laxarnir sáust í ánni. Stóra Laxá opnar brátt og víða hafa menn séð góðar göngur þar, m.a. þó nokkra áætlaða 15 til 20 pundara. Þá má minna líka á Laxá á Ásum þar sem þeir fyrstu sáust fyrir viku. Næst að opna er líklega Haffjarðará um komandi helgi og þar hefur einnig sést til laxa.

Í Selá fóru menn að sjá lax víða fyrir um viku síðan, en áin opnar ekki fyrr en 25.júní

                                     Kominn inn í Svartastokk

Augljóslega er laxinn að ganga með fyrra fallinu í ár, en brögð hafa verið að því síðustu árin. Þverá/Kjarrá opnaði þann 10.6 s.l. og einn í hópi veiðimanna í Kjarrá lagði það á sig að ganga inn í Svartastokk og Starir. Þar landaði hann sjö löxum. Laxinn virtist vera löngu mættur. Í sama holli setti veiðimaður í tvo fallega laxa í Lambastreng/Colonel á Gilsbakkaeyrum og voru báðir með halalús. Í umræddum stað er laxinn kominn eina 60 kílómetra frá sjó. Það er því mikil ferð á honum.

En er þetta eitthvað óvenjulegt í raun? Fyrrum hófust netaveiðar í Hvítá ævinlega 20.mai og alltaf veiddist. Stundum lítið og stundum meira. En sjaldgæft var að ekkert aflaðist. Algengt hefur verið lengi að silungsveiðimenn í Borgfirskum ám hafi sett í nýgengna laxa í maimánuði. En vissulega kom tími að lítið veiddist og færðu þá margir leigutakar opnanir aftar í júní. Kannski að þessi nýja bylgja sé vegna þess að tveggja ára laxinn sé að braggast?

Það sem er kannski óvenjulegt er hversu áberandi smálaxinn er þótt nú sé aðeins að koma miður júní. Fyrrum hafa menn litið svo á að tími smálaxins sé undir lok júní og síðan júlímánuður. Strax í fyrsta holli í Norðurá komu þrír undir 70 cm og í næsta holli fjórir. Í Þverá/Kjarrá var aflinn blandaður. Mest stórlax, en einnig slatti af smálaxi. Og af mynd að dæma sem IO veiðileyfi birtu í gær á FB síðu sinni, þá er smálax orðinn áberandi í afla veiðimanna í Urriðafossi í Þjórsá.

Þannig að vissulega er allt að fara afar vel af stað, en hvað þetta endist leiðir tíminn einn í ljós.