Blanda
Glímt við lax í Blöndu. Nú er komið yfirfall.

Blöndubændur ætla að finna sér samstarfsaðila til að reka og sjá um veiðileyfasölu og rekstur veiðihúsa við Blöndu og Svartá, til framtíðar litið. Þeir gefa sér til 2.september að finna slíkan aðila. Í orðunum liggur að ekki verði hefðbundið útboð heldur leitað fremur í formið sem við lýði hefur verið við Norðurá og Laxá á Ásum. Til þessa hafa Blöndumenn gripið eftir að leigutakinn Lax-á sagði óvænt upp samningum um árnar við landeigendur.

Í fréttatilkynningu sem okkur barst af fundinum segir eftirfarandi: „Á almennum fundi veiðifélags Blöndu og Svartár í Dalsmynni 28. ágúst 2019 var samþykkt tillaga stjórnar um að breyta veiðireglum þannig : “ Einungis verði veitt á flugu á öllum svæðum. Aflakvóti verði einn lax á vakt pr stöng. Öllum laxi 69 cm og lengri skal sleppt.“ Var þar einnig samþykkt að auglýsa eftir áhugasömum samstarfsaðilum. Þeim sem kunna að hafa áhuga á samstarfi er bent á að hafa samband við formann félagsins Sigurð Inga Guðmundsson í síma 8917119 eða á netfangið s-langamyri@simnet.is fyrir mánudaginn 2.september 2019.“

Stefán Páll Ágússston, sem sat fundinn sagði við VoV: „Sjálfum finnst mér þetta vera mikil tíðindi,  sérstaklega breyting á leyfilegu agni og kvótasetning.“ Í þeim orðum Stefáns liggur einmitt að svæðin í Blöndu og Svartá hafa lotið öðrum lögmálum en víðast hafa viðgengst annars staðar. Á meðan aðrar þekktar ár hafa meira og minna fluguveiði alla vertíð, ýmist öllu sleppt eða gefinn þröngur kvóti af smálaxi, þá hefur t.d. maðkur verið leyfður í Blöndu og fréttir af veiði, einkum af neðsta svæði Blöndu fram eftir sumri verið um magnveiði, oft með maðki þar sem kvótinn hefur verið stór og engar sérstakar hömlur á dráp á stórlaxi. Nú var Blanda með heldur slaka heildarveiði í fyrra og ekki lítur út fyrir betri tíð í sumar. Landeigendur hafa því skv þessum tíðindum tekið þá stóru ákvörðum að skipta alveg um stíl,  enda hér komin sambærileg verndarstefna og víðast hvar er að finna við aðrar laxveiðiár í landinu.