Karen Þórólfsdóttir, Hofsá
Karen Þórólfsdóttir með fallegan Hofsárlax. Mynd Gísli Ásgeirsson.

Veiðiklúbburinn Strengur hefur framlengt leigusamning sinn um Hofsá til næstu sex ára. Áin er að koma til eftir lægð og eru gagngerar mótvægisaðgerðir komnar til framkvæmda.

Nýi samningurinn er frá næsta ári 2018 til og með 2023. Gísli Ásgeirsson hjá Streng sagði í samtali við VoV að félagið og Veiðifélag Hofsár hefðu á síðasta ári sammælst um átak til að hjálpa ánni úr þeim öldudal sem hún hefur verið í allra síðustu ár. „Það var byrjað að grafa hrogn í fyrra og var gert aftur í haust. Næstu ár verður því haldið áfram. Þetta er gert bæði ofan og neðan við foss og við höfum verið að nota hátt í tug stórra hrygna sem að hafa verið stangaveiddar og hafðar í aðhaldi.

Dæmigerður Hofsárveiðistaður ef undan er skilið allra efsta svæðið, langur fallegur veiðistaður þar sem veiðivon getur verið víða. Mynd Jón Eyfjörð.

Bjarni Jónsson fiskifræðingur hefur mælt þéttleika seiða í ánni og hrognagröfturinn fer aðeins fram þar sem Bjarni telur að seiðaþéttleikinn bjóði upp á þetta, það er sem sagt ekki grafin hrogn sem að myndu við klak auka þr´syting á þau seiði sem fyrir eru. Við vonumst til að þetta og fleira sem er í pípunum verði til þess að draga úr sveiflum í göngum og veiði,“ sagði Gísli.

Burtséð frá átakinu þá voru teikn á lofti á nýliðnu sumri um að áin væri að koma til baka. Bæði var meira af laxi en 2016 og betur dreifður. Eigi að síður var veiðin  undir því sem áin hefur best getað. Hins vegar hafa sveiflur ævinlega hvergi verið meiri í íslenskum laxveiðiám heldur en á Norðausturhorninu, enda má lítið út af bera á þeim slóðum til að laxastofnar finni fyrir því.