Nýjungar hjá Veiðikortinu

Kápumynd upplýsingabæklings Veiðikortsins 2022.

Veiðikortið fyrir 2022 kom út nokkru fyrir jól og er alltaf um sama hvalrekann fyrir veiðimenn að ræða. Alls geta korthafar bleytt færi í 36 vötnum og ám víðs vegar um land og nú hafa spennandi valkostir bæst við.

Í frétt á vef Veiðikortsins segir frá nýjungunum: „Fyrir árið 2022 bætast við möguleikar fyrir ævintýragjarna veiðimenn, en þeir sem fara í Hólmavatn á Hólmavatnsheiði geta nú einnig veitt í Gullhamarsvatni sem og Selvötnum sem eru í stuttu göngufæri frá Hólmavatni. Veiðikortið hefur verið vinsæl jólagjöf síðustu árin enda höfum við kappkostað við að hvetja veiðimenn og fjölskyldur til að njóta íslensks sumars við falleg veiðivötn. Með Veiðikortið í vasanum geta veiðimenn veitt í 36 veiðivötnum vítt og breitt um landið fyrir aðeins kr. 8.900.“

Ingimundur Bergsson framkvæmdastjóri og einn eigenda Veiðikortsins sagði í samtali við VoV að umrædd vötn á Laxárdalsheiði, Sevötn og Gullhamarsvatn væru nánast eðlilegar viðbætur. „Selvötn eru tjarnir þarna skammt undan, en það er aðeins lengra í Gullhamarsvatn, þó ekki nema 10 til 15 mínútna gangur. Sjálfur hef ég ekki veitt í þessum vötnum en það eru alltaf einhverjir sem leita þangað og það væri ekki svo ef eftir engu væri að slægjast.“

Ingimundur bætti við að ekkert vatn hefði dottið út frá síðasta ári, en verið gæti að enn myndu bætast við svæði fyrir vorið. Hann taldi þó ótímabært að nefna nöfn í því sambandi.