Um alla þessa breiðu liggja vænir urriðar, en það getur verið snúið að fá þá til að taka fluguna.

Galtalækur í Landssveit hefur skipt ansi oft um hendur leigutaka síðari árin og hefur nú gert svo á nýjan leik. Að þessu sinni hafa Strengir bætt honum í safnið og verður hann nú boðinn með Minnivallalæk.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Strengjum þar sem Þröstur Elliðason bendir á að áin verði nú boðin samhliða Minnivallalæk, enda aðeins tíu mínútna akstur milli ána tveggja. Samt sem áður verður stöngum ekki fjölgað þó að svæðin verði seld saman, eftir sem áður verða fjórar stangir í boði og aðsetur þeirra í veiðihúsinu Lækjarmóti, á bakka Minnivallalækjar.

Galtalækur ef afar líkur Minnivallalæk, enda eru árnar að upplagi líkar, kalt lindarvatn undan hrauni og mjög stöðugt flæði. Eins og í Minnivallalæk þá er afar stórvaxinn urriði í Galtalæk og áin er afar „tæknileg“ eins og Minnivallalækur. Galtalækur jafnvel þess þá heldur því hann er talsvert vatnsminni heldur en Minnivallalækur þó að hann leyni á sér.