Leirá, lax
Farið að bóla á smálaxagöngum. Mynd Stefán Sig.

Smáárnar í nágrenni höfuðborgarinnar hafa ekki farið varhluta af líflegum göngum laxfiska að undanförnu. Farið er að veiðast í Korpu, Leirá og Breynjudalsá.

Stefán Sigurðsson, Leirá
Stefán Sigurðsson með fyrsta laxinn úr Leirá 2018.

Leirá er sú þeirra sem er hvað mesta síðsumarsáin, en leigutakinn Stefán Sigurðsson hjá IO veiðileyfum skaust upp eftir í fyrradag og það tók hann tíu mínútur að setja í og landa fyrsta laxi sumarsins. Áraskipti eru að því hversu mikill lax kemur í ána, en hún hefur að auki öflugan stofn sjóbirtings. Þetta er óvenjulega snemmt fyrir Leirá.

Brynjudalsá
Flottur tveggja vetra hængur úr Bárðarfossi í Brynjudalsá. Glöggt má sjá flauminn við stigann sem er til hægri í fossinum. Myndin er frá Hreggnasa.
Brynjudalsá
Glæsilegur sjóbirtingur úr Brynjudalsá í vikunni.

Brynjudalsá er farin að gefa, en sérstakt vandamál hefur verið þar og svipar til þess sem Harlaldur Eiríksson sölustjóri Hreggnasa lýsti fyrir okkur að verið hefði í Laxá í Kjós að undanförnu. Svo mikið og kalt vatn hefði verið í ánni að laxinn hefði ekki gengið upp fyrir Laxfoss. Þess í stað hlaðist upp í veiðistöðum þar fyrir neðan. Laxfoss er stutt frá sjó, en Bárðarfoss í Brynjudalsá er enn nær fjöruborðinu og hann hefur verið svo vatnsmikill að laxastiginn í honum hefur verið ófær. Talsvert hefur hlaðist upp af laxi og vænum birtingi að undanförnu. Minna hefur nú rignt síðustu daga og vatn sjatnað örlítið, þannig að vandamálið kann að verða úr sögunni innan skamms.

Skúli Skarphéðinsson, Leirvogsá
Skúli Skarphéðinsson með einn af mörgum úr Leirvogsá á opnunardaginn. Myndin er frá Lax-á

Þá má nefna Korpu sem rennur innan borgarmarka Reykjavíkur. Þar hófst veiðin 27.6 og í gær var búið að skrá alveg um þrjátíu laxa í bókina. Leirvogsá var með ellefu laxa fyrsta daginn 24.6 og hefur verið líflegt síðan.