Iron Fly, fluguhnýtingar
Setið við væsinn á Iron Fly 2017. Myndin er frá Fish Partner.

Fish Partner og Pig Farm Ink efna á ný til Iron Fly, sem er m.a. fluguhnýtingakeppni og kastkeppni auk þess sem ýmislegt fleira er lagt á borð veiðimönnum til skemmtunar.

Gunnar Örn Petersen hjá Fish Partner sagði í skeyti til VoV að menn vildu halda inn í veturinn með „frábærri skemmtun og stemmingu. Þetta er eitthvað sem allir áhugamenn um veiði og fluguhnýtingar geta ekki látið fram hjá sér fara,“ sagði Gunnar.

Fish Partner, Iron Fly
Frá Iron Fly 2017, vel mætt greinilega. Myndin er frá Fish Partner.

Að sögn Gunnars eru keppnirnar bæði fyrir byrjendur og lengra komna og munu veiðibræðurnir Gunnar og Ásmundur Helgasynir sjá um dómgæsluna. Auk þess að bjóða til keppni í fluguköstum og hnýtingum verður happadrætti, gjafir og vinningar sem nema um 300þúsund krónum að verðgildi. Þá má nefna að Ballantines umboðið verður með sýnishorn fyrir þyrsta, en keppnin fer fram á Sólon Bistro á laugardaginn næst komandi og opnar húsið klukkan 20.00. „Það er engin skráning, bara mæta,“ bætti Gunnar við.