Það bíður útgáfu glæsileg og metnaðarfull bók um Selá í Vopnafirði. Hún var tilbúin, umbrotin og klár, skömmu fyrir jól, en af tæknilegum ástæðum kom hún ekki þá út og var hún sett á 2017. Bókin er í anda ritraðar ritstjóra VoV og Einars Fals Ingólfssonar ljómyndara þar sem áður hafa komið út bækur um Laxá í Kjós, Grímsá, Langá og Þverá/Kjarrá. Bókin er full af viðtölum, sögum og fróðleik og hér er smjörþefur:

Gústaf Vífilsson hefur setið í stjórn veiðifélags Selár í allnokkur ár. Hann er þriðji ættliður fjölskyldu sem bæði hafði hvata að ræktun og uppbyggingu Selár og stofnun veiðiklúbbsins Strengs sem hefur haldið utanum veiðiskap í Selá síðustu áratugi.

Afi Gústafs var Oddur Ólafsson sem,ásamt Gústaf Þórðarsyni, kom þarna og festi kaup á jörðinni Leifsstöðum og hófst handa við fiskvegagerð í Selárfossi sem gerbreytti ánni á fáum árum. Faðir Gústafs er Vífill Oddsson, verkfræðingur, einn af  stofnfélögum í Streng sem keypti Hvammsgerði, breytti slökum húsakosti þar í fínasta veiðihús, keypti seinna fleiri jarðir og hefur haft ána á leigu síðan. Vífill hannaði enn fremur báða laxastigana í Selá og var sá fyrri, í Selárfossi, sá fyrsti af mörgum víða um land sem Vífill hefur teiknað. Fjölskyldan hefur auk þess komið að hinni stórfelldu fiskvegagerð og ræktun Langár á Mýrum.

Gústaf Vífilsson með fallegan lax. Mynd Ragnheiður Rósarsdóttir.

Gústaf er, eins og faðir hans og samferðarmenn í Streng, nánast hálfur Vopnfirðingur. Fyrstu skrefin hans á bökkum Selár voru raunar ekki raunveruleg skref, því hann ferðaðist um bakka hennar sem lítið barn í barnavagni. Fjölskylduóðalið var að Leifsstöðum og þar var fjölskyldan ár hvert til lengri eða skemmri tíma. Maríulaxinn sinn, 5 pundara, veiddi Gústaf 7 ára gamall í Efrifossi. Veiði tók skjótt við sér ofan við Selárfoss þegar stiginn var kominn í gagnið og áin var þá veidd í tvennu lagi, neðri áin frá Hvammsgerði og efri áin frá Leifsstöðum og kallað Leifsstaðasvæðið.

„Yfirleitt fórum við ekki lengra upp eftir heldur en í Arnarhyl, þetta eru miklar vegalengdir, en þó om það fyrir að við létum skutla okkur upp í Efrifoss og veiddum okkur síðan til baka. Þá var farið af stað 6-7 um morguninn og komið í hús seint að kvöldi. Það var gjarnan tekinn einn slíkur dagur þegar við vorum á svæðinu. En þetta var skemmtilegur tími, að koma á veiðistaði eins og Krók, Hamarshyl og fleiri og það var allt ósnortið. Þú sást ekki svo mikið sem fótspor í sandi. Það var eins og þetta væri friðað svæði, en svo var auðvitað ekki því þetta var veiðisvæði. Fyrir vikið hittum við nánast alltaf á marga hylji vel hvílda og laxinn gat tekið vel. Á þessum árum var enn leyfð veiði með maðki og oft var veiðin mögnuð. Eitt sinn var mér skutlað upp í Efrifoss og í bakpoka var ég með veiðistaðaskiltin, fyrirferðamikil skilti, spjöld áföst vatnsrörum. Þetta voru 60-70 kílógrömm í pokanum og planið var að reka þessi skilti niður þar sem þau áttu að vera og veiða hyljina á liðinni niður eftir. Þetta var þung byrði en ég var í góðu líkamlegu formi. Og þetta tók á því þótt að grynnkaði á veiðiskiltum þá tíndust laxar í pokann í staðinn. Ég hitti ekki á félaga mína fyrr en ég var kominn niður að Réttarhyl og þá var ég ekki bara með laxa í bakpokanum heldur líka í samanbundinni laxaslöngu sem ég var með yfir axlirnar. Veiðifélagi okkar Gunnar Sv.Jónsson og Ragnheiður kona mín voru þarna og þau flýttu sér til móts við mig, ég var víst farinn að ráfa. Jóhannes föðurbróðir minn fór þessa leið eitt sinn og kom niður eftir með tíu 10-12 punda laxa sem hann þurfti að hengja á fingurna sína þar sem hann hafði gleymt að taka plast og var engan bakpoka með,  og hann var marga daga að jafna sig,“ segir Gústaf.

Hann nefnir að veiðin hljóp á bilinu 50 til 350 laxar á þessum árum, fram undir 1977-78, en eftir kuldaárið 1979 kom hrun. Áin jafnaði sig síðan smám saman, en annað kuldasumar 1985 setti allt til baka á ný. En eftir það hefur áin verið í stöðugri sókn, ytri skilyrði yfirleitt verið góð og síðan bættist við óhemja af auknu hrygningar- og búsvæðum, til dæmis væri allt miðsvæði árinnar „par excellence“ hvað varðaði hrygningarskilyrði og nýja svæðið ofan Efrifoss væri einnig gott þó að það væri viðkvæmara. Allra síðustu sumur hefur áin örlítið gengið til baka, en Gústaf bendir á að allar ár á Norðausturlandi eru á jaðrinum og sérlega viðkvæmar fyrir ytri skilyrðum og þeim breytingum sem kunna að verða á þeim. Hann segir:

„Þessi síðustu sumur hefur vatnshiti verið minni en árin á undan. Það hafa verið snjóþungir vetur og snjóbráðin oft lengi sumars að skila sér niður. Það heldur árvatninu köldu þó að lofthiti geti verið góður. Þetta þýðir að seiðin vaxa hægar og þurfa lengri tíma í ánni þar sem afföll eru gífurleg, jafnvel við bestu skilyrði. Við þessar aðstæður geta seiðin þurft 4-5 ár í ánni, en þar áður kannski bara 3-4 ár og það munar um það. Hins vegar var ástandið aftur orðið mjög hagstætt í sumar (2016) og seiðamælingin sýndi mjög gott ástand og mikið af gönguseiðum á leið til sjávar á hagstæðum tímapunkti. Þetta er því kannski að snúast aftur við, en engin sér svo sem fram í tímann með það.“

Þetta mikla vatn, – þetta kröftuga vatn… Mynd -gg.

En hvað laðar helst við Selá? „Þetta mikla vatn. Þetta kröftuga vatn. Krafturinn. Þá er ótrúleg fjölbreytni í veiðistöðum og margir þeirra þannig að í þeim eru staðir sem laxinn sækir í og setur þig í ómögulega stöðu. Með allt þetta vatn og allan þennan kraft stendurðu oft í því að vera með 10 til 12 punda fisk og ráða ekkert við hann. 2016 var ekkert nema stórlax í ánni og ég veit ekki hvað ég lenti oft í því að hlaupa allt að kílómeter á eftir löxum, eða skrönglast út í flauminn í stórgrýti til að lempa línuna úr festum. Það eru vissir staðir í mörgum hyljum og laxinn sækir í þá. Þú missir marga, en nærð líka sumum og minningarnar sem sitja eftir eru engu líkar. Þá er áin á afar traustum grunni ef við getumorðað það svo, grjót og klappir í botni og ég hreinlega man ekki eftir því að hafa heyrt því lýst, sem maður hefur oft heyrt um og við aðrar ár, að einhverjir hyljir séu allt í einu ónýtir af því að þeir eru orðnir fullir af möl. Selá er ekkert þannig, nema kannski að einhverju litlu leyti neðan við brú, en þar er orðið skammt til sjávar. Já, Selá er afar krefjandi, sérstaklega efri hlutinn. Þú veður þessa á ekkert hvar sem er og bara alls ekki ef að vatnshæðin er mikil. Þá eru þarna djúp gil og háar brekkur. En þetta er líka afburða fallegt allt saman, gilin víða kjarri vaxin og fuglalíf fjölskrúðugt.“

Gústaf hefur eðli málsins samkvæmt dregið marga og minnistæða laxa úr Selá og átt þar frábærar stundir með fjölskyldu og vinum, eða einn með sjálfum sér. Hann hefur dregið 20 pundara úr ánni. Fékk hann í veiðistaðnum Úlfi. Það var sumarið 1996. En það er ekki eftirminnilegasti stórlaxinn, Gústaf hefur nefnilega dregið 107 sentimetra lax úr ánni sem var þó ekki allur þar sem hann var séður. Hann var 16 ára gamall og var með föður sínum í Vaðhyl. Þegar hann setti í stórfiskinn var aðeins ein og hálf klukkustund þar til hann átti að ná flugi suður og það mátti ekki farast fyrir því að hann þurfti að mæta í úrslitaleik í knattspyrnu, þá sem leikmaður Þróttar. Þetta setti mark sitt á glímuna, fast var tekið á laxinum og Vífill óð um allt með sporðsnöru að vopni og sætti lagi að lauma henni upp á styrtlu laxins. Það tókst loksins, langt úti í á og á land kom þessi mikli hængur. „Þessi lax tók litla Blue Charm tvíkrækju og já, hann kom okkur öllum á óvart því hann fór á vigt þessi. Það var ekkert verið að sleppa stórlöxum í þá daga. Laxinn var aðeins 17 pund þrátt fyrir lengdina. Fyrir vikið læt ég duga nú til dags að segja að ég hafi landað 107 sentimetra laxi. Minnist ekkert á þyngdina, en samkvæmt kvarðanum sem allir fara eftir í seinni tíð þá hefði þessi lax verið færður til bókar sem í það minnsta 24 pundari. Hann var furðu mjór miðað við lengd og þess má geta, að veiðifélagi okkar og vinur, Gunnar Sv.Jónsson, veiddi 101 sentimetra lax þennan sama dag og sá lax var veginn 21 pund, eða alveg í samræmi við kvarðann.“