Síðasti laxinn sem glímt var við í Jöklu í morgun, áður en yfirfallið gerði ána óveiðandi. 61 cm halalúsugur hængur, 50 km frá sjó! Áin greinilega orðin ansi skoluð þarna.

Yfirfallið er skollið á í Jöklu. Skilyrði valda því hverju sinni hversu snemma það gerist og þetta árið er það óvenjusnemma á ferð….og skrúfar fyrir hörkuveiði sem verið hefur í ánni að undanförnu. Munu menn nú þurfa að einbeita sér að hliðaránum og vatnamótum þeirra við Jöklu og vona að yfirfallið gangi yfir á sem skemmstum tíma.

Snævar t.v. og erlendur viðskiptavinur með nýgengnaa hrygnu af Teigsbroti.

Á FB síðu Strengja, sem er leigutaki árinnar, segir: „Frábær veiði er búin að vera í Jöklu síðustu tvær vikur en núna þurfa veiðimenn að einbeita sér að hliðaránum og Fögruhlíðará þar sem yfirfallið kom því miður niður Jökuldalinn í nótt. Síðasti dagurinn fyrir yfirfall var í gær og skilaði hann 25 löxum á land. Það var í bland lúsugur fiskur og legnir stórlaxar. Meirihluti fiskanna voru 70+ cm fiskar og sá stærsti glæsileg 94 cm hrygna úr veiðistaðnum Arnarmel. Mjög fáar veiðiár að skila viðlíkri veiði á Íslandi þetta sumarið og er sorglegt að yfirfallið taki þessa veiði af okkur. Núna er bara að taka fram einhendurnar og léttu græjurnar og veiða laxinn í hliðaránum og Fögruhlíðará.“

Snævarr Örn Georgsson fer fyrir leiðsögn erlendra veiðimanna í ánni nú um stundir. Hann sagði: „Þetta mjög snemmt og grátlegt að það gerist þegar það er blússandi veiði. Þetta er síðasta heila holl. Mínir menn í því voru með 20 laxa á 5 vöktum og í gær fengu mínir menn 8 fiska. Fáar ef nokkrar ár sem eru að skila þannig veiði í ár.“

Glæsilegur hængur af Sandárbroti. Myndir eru allar frá Snævarri Erni….

En hvað með framvinduna, möguleikann á því að yfirfallið gangi yfir og betri dagar með blómum í haga taki við á endavikum vertíðarinnar?

„Það fer eftir því hvernig veðrið verður. Ef það er hlýtt eða rigning frameftir hausti þá gæti þess vegna verið yfirfall fram í nóvember, en það er kuldi framundan svo vonandi fer hún aftur af yfirfalli, en það er ekkert hægt að segja um það nærri því strax,“ svarar Snævarr.

Til upprifjunnar þá kom yfirfall í Jöklu snemma í fyrra líka, að vísu ekki svona snemma. Aðstæður voru síðan þær að yfirfallið gekk yfir áður en veiðitíminn var á enda og náðist slangur af veiðidögum áður en svæðinu var lokað. Þá var einnig hörkufín veiði á svæðinu, rétt eins og nú. Hlýtur að vera afskaplega erfitt og pirrandi að reka veiðisvæði með svona óútreiknanlegum aukafaktor.