Viljinn er allt sem þarf, Black Sheep skautar yfir Kotakvörn í Grímsá. Allar myndirnar eru af FB síðu Haraldar.

Nýlega hvarf mikill og frægur veiðimaður til hinna óþekktu veiðilenda. Haraldur Stefánsson fyrrum slökkvistjóri á Keflavíkurflugvelli. Hann var orðinn ríflega áttræður. Haraldur var einn fengsælasti og snjallasti stangaveiðimaður landsins, en þekktastur er hann kannski fyrir að vera höfundur hinnar frábærlega fengsælu laxaflugu Black Sheep.

Á árum áður gaf VoV út tímarit á pappír og í febrúar 2007 birtum við viðtal við kempuna. Hér ætlum við að birta eitt og annað úr viðtalinu og heiðra með því minningu Haraldar. Þar má til dæmis lesa um um tilurð Black Sheep, kenningar um stórlaxinn og fækkun hans og fleira.

                              Black Sheep verður til

Black Sheep í „væsnum“ hjá Haraldi.

Í viðtalinu er Haraldur spurður útí í tilurð og hnýtingu Black Sheep. Hann sagði: „Jú, einmitt. Black Sheep. Það virðast vera margir sem að telja að Joe Hubert (vinur Haraldar) hafi fyrstur hnýtt þessa flugu, Joe hefur aldrei hnýtt flugur enda kann hann það ekki, en óafvitandi gaf hann henni þó nafnið. Hann Egill staðarhaldari við Grímsá var meira að segja kominn með það inná vefsíðuna sína, að arkítektinn Ernie Schwiebert ætti fluguna, en hann hafði einfaldlega fengið rangar upplýsingar og leiðrétti þetta ljúfmannlega um leið og ég benti honum á vitleysuna. Enda mikið ljúfmenni hann Egill. Þá stendur í nýútkominni bók sem heitir Laxaflugur í íslenskri náttúru, að Joe sé höfundurinn, en nafn mitt sé oft nefnt í sömu andránni.

Ég skal ekki segja hvað hefur valdið þessum misskilningi, en Black Sheep átti sér aðdraganda. Þetta gamalreynda Bandaríkjamannaholl var í Norðurá, þetta var á áttunda áratugnum og á þessum árum vildu þessir karlar alls ekki veiða á túpur. Túpur voru eitthvað að ryðja sér til rúms og gáfu afar vel, en þessir karlar vildu bara þessar gömlu klassísku bresku. Hitt var svo annað mál, að þótt mikið væri af laxi þá var hann alls ekki að taka. Ég settist því við væsinn og hnýtti flugu sem var að upplagi lík túpuflugu í vatninu. Þar með var komin Black Sheep, longtail útgáfa. Þetta var svona túpuígildi að sjá í vatninu. Hugmyndin var síðan að að sökkva þessu með höglum á taumnum.

Allt til enda, Haraldur með einn fallegan úr Elliðáánum.

Þegar ég sýndi síðan Joe fluguna, tók hann hana og lagði hana í boxið hjá öllum þessum gömlu og klassísku, horfði á hana og sagði svo: „Halli, this fly is totally out of place. It looks like the black sheep in the family.“ Þarna fannst mér karlinn hafa ratað á frábært nafn á flugunni og það er skemmst frá að segja að við mokveiddum á fluguna og síðan hefur hróður hennar bara aukist. Joe gat ekki hafa hnýtt þessa flugu, því hann hnýtti aldrei flugur. Hins vegar tók hann uppá því hjá sjálfum sér að hanna Sheep línuna, en í henni eru t.d. Silver Sheep, Green Sheep og Red Sheep. Allt góðar flugur við hinar ýmsu aðstæður. T.d. er sú græna mjög skæð í skoluðu vatni.“

                                 Þanghafið og stórlaxinn

Síðan er Haraldur spurður, síðar í viðtalinu um kenningu hans um tengsl Black Sheep við fæðu og afdrif stórlaxa, (sem þá voru í mikilli lægð) Og ekki stóð á svarinu:

„Jú, ég var eitt sinn að veiðum í Hítará og í einu hléinu greip ég í bók sem var þar í hillu. Þetta var nokkuð gömul bók sem fjallaði um lífshlaup laxins. Þar kom fram að það eina sem vitað væri með vissu um laxaseiðin er þau færu úr ánni og út í hafið, væri að þau leituðu á móti straumi líkt og er í eðli laxins að gera. Ég velti þessu fyrir mér og komst að þeirri niðurstöðu að hvert laxinn fer liggur nokkuð í augum uppi. Maður verður að treysta kenningum sínum. Seiðin sem ætla að vera eitt ár í sjó, leita til Grænlands. Þau eru nokkurs konar póllaxar, éta m.a. rækju og koma svo heim sem smálaxar og éta hér rauða Frances í ánum. Seiðin sem ætla að vera lengur í hafinu fara allt annað, það er staðreynd. Mín skoðun er sú að þau leiti á móti straumi í suðurátt þar til að þau eru komin á leið suður í höf, á móti Golfstraumnum. Þau syndi alla þessa leið þar til komið er suður í hið dularfulla Þanghaf, en nokkru áður eru þau farin að mæta álalirfum sem eru í uppvexti eftir að hafa klakist úr hrogni í Þanghafinu og eru á leið norður í höf, m.a. til Íslands. Þær eru glær með svörtu í fyrstu, en svo bætist gulur litur við. Laxaseiðin nærast á þessum seiðum og snúa við og fylgja þeim aftur til norðurs. Ef að menn skoða myndir af þessum álaseiðum má glöggt sjá að lögun og litur Black Sheep er ekki úr lausu loftið gripinn. Gulur og dökkgrænn.

Höfuðhylur alltaf líklegur.

Búkliturinn í Black Sheep er dekksta gerð af grænum og ef menn rýna í fluguna sjá þeir það. Það skilar sér betur þegar hún er ofan í vatninu. En ef að Black Sheep er hnýtt með svörtum búk, þá er það bara eithvert afbrigði. En nú er ljóst að stórlaxinum hefur fækkað mjög og það helst í hendur við mikla fækkun áls. Þarna er samasem merki á milli að mínu mati.“

                          Regnboginn sem laxinn eltir

Margt og mikið segir Haraldur í viðtalinu, en það var aldrei ætlunin að birta það allt, lesendur VoV fengu að njóta þess á sínum tíma. Aðeins að tína útúr gullkorn og hér er eitt í viðbót, og það fjallar um spekina við að veiða með hitsi:

Þessi kunni að njóta lífsins.

„Svo hefur mér alltaf fundist sérstaklega gaman að veiða með hitsinu, það sem menn kalla Portland Creek Hitch í Bandaríkjunum eða riffle hitch og gáruhnút hér heima. Þessa veiðiaðferð hef ég stúderað löngum stundum með Joe Hubert vini mínum og veitt afburða vel. Ég heyri menn oft og iðulega segja, að laxinn hafi elt hjá þeim hitsið, en ekki náð því. Þetta er grundvallarvilla. Laxinn missir ekki af hitsinu, því það er ekki flugan sem hann er að höggva eftir.

Þegar laxinn er lítið seiði í uppvexti í ánni þá þjálfar hann með sér að fylgjast með flugum á yfirborði árinnar. Þegar þær hreyfa vængina til að athafna sig eða hefja sig til flugs, gefa þær frá sér fínlegan vatnsúða og þegar birtan sker þennan úða myndast agnarsmár regnbogi sem við nemum ekki, en laxaseiðið, og seinna laxinn sjálfur, gerir. Þegar menn eru að lenda í þessu sem þeir kalla að laxinn nái ekki hitsinu, þá eru þeir með of mikla ferð á flugunni og fyrir vikið er regnboginn á eftir flugunni. Það er regnboginn sem fiskurinn nemur og heggur eftir. Við Joe sátum löngum stundum á útsýnisstöðum og gerðum tilraunir með þetta. Festum meira að segja eldspýtu á tauminn á stundum til að athuganirnar væru ekki truflaðar af því að lax tæki og festi sig. Þetta margsýndi sig að vera rétt hjá okkur. Þegar við áttuðum okkur á þessu og sáum það í praxís, þá festum við í margfalt fleiri löxum og misstum fáa.“

Það var og. Heillandi vísindi og kenningar gengins öðlings. Með þessum línum kveður VoV eftirminnilegan veiðimann.