Þessi mynd Sveins Björnssonar frá Hamarshyl í Selá lýsir nokkuð vel veðurfarinu fyrir austan síðustu vikur, þoka og suddi. Fínt vatn og fínt veiðiveður. Og nóg af laxi.

Þó að Eystri Rangá leiði hjörðina með glæsibrag, þá sýnist okkur við skoðun að Selá hafi verið með afgerandi bestu veiðina síðustu vikuna hvað varðar meðalveiði á stöng.Tæplega fimm á stöng á dag, virkilega glæsilegt sérstaklega þegar skoðað er hversu krefjandi laxveiðiá Selá er.

Gísli Ásgeirssin umsjónarmaður árinnar staðfesti þetta í samtali við VoV. „Það er rétt, hollið sem fór í gær var með 170 laxa á sex stangir á sex dögum. Sem gerir rétt tæplega 5 laxa á stöng á dag. Ekki amalegt það ,“ sagði Gísli. Við skoðun á lista LV á angling.is komum við ekki auga á neina á sem hefur haft meiri meðalveiði á stöng síðustu vikuna. Ef okkur er að yfirsjást eitthvað má gjarnan senda okkur ábendingu.