Sporðaköst eru að taka upp þátt um Lillu Rocliffe og hér er hún að standa sig í fyrirsætuhlutverkinu, búin að setja í stórlax!

Mitt í öllum bölmóðinum í laxveiðifréttunum, hljótum við að fagna því að skot hefur komið í Laxá í Aðaldal og það eru aðallega tröll sem eru að veiðast! Þrír um og yfir 100 cm og nokkrir fast að því, bæði í Nesi og niður frá.

Hugo Black með einn 99 cm af Skerflúðum, hálfum sentimetri styttri, en 150 grömmum þyngri en lax sonarins. Mynd er frá FB síðu Nes

Síðasta holl í Nesi var með 17 laxa og hópurinn sem tók við er búinn að vera í fiski líka. Þetta eru ekki bara laxar sem eru farnir að taka lit, nýir og nýlegir fiskar líka. Lilla gamla Rocliffe, komin vel á tíðræðisaldur er þarna eina ferðina enn og búin að landa nokkrum, þar af einum 94 cm. Barnabarnið hennar 99,5 cm og Hugo Black 99 cm, sem þó mældist heilum 150 grömmum þyngri í háfnum. Þessir laxar eru gefnir upp 9,75 og 99,60 kg og um 22 pund skv enska dæminu, en eru rétt innan við 20 pundin skv íslenska kílóinu. Á sama tíma voru fleiri að setja í þá stóru, Anna Margrét Kristinsdóttir, nýkomin heim frá Kolaskaga með nokkra risa í veiðibókinni, landaði 100 cm og Nils Folmer Jörgensen, sem er vanur að landa nokkrum af þessu tagi á hverju sumri, landaði öðrum 100 cm. Sporðaköst hafa verið að fylgja Lillu um hvert fótmál og verður gaman að sjá afraksturinn af því á komandi vetri.

Auðvitað gat Nils ekki látið á sér standa, 100 cm hrygna!

Og það er gaman að ítreka það, að skv síðustu frétt okkar, þá eru að veiðast álíka tröll á svæðum Laxárfélagsins. Ekki skrýtið því þetta er sama áin og til upprifjunar sögðum við um helgina frá einum 104 cm og öðrum rétt innan við meterinn. Á meðan að menn bíða eftir smálaxi sem annað hvort kemur, eða kemur ekki, þá geta menn ornað sér við sögur af stórum löxum.