Það er lítið eftir að koma af lokatölum sem skipta máli, nokkrar vantar þó eins og Norðurá og Grímsá. En hér eru tvær tölur í viðbót, Húseyjarkvísl og Vatnsá. Við hlupum ef til vill aðeins á okkur að segja fyrir helgi að aðeins væri opið enn í fimm ám, seinna fréttum við að menn væru að rífa‘ann upp í Fossá í Þjórsárdal.

Ellen Marie Larson með 97 cm lax úr Gullhyl - Mynd Valgarður Ragnarsson
Ellen Marie Larson með 97 cm lax úr Gullhyl í Húseyjarkvísl – Mynd Valgarður Ragnarsson

Kíkjum fyrst á Húseyjarkvísl. Þar veiddust skv upplýsingum frá leigutakanum Valgarði Ragnarssyni 335 laxar í sumar, sem er „þriðja besta laxveiðin frá upphafi“ eins og hann segir sjálfur. Silungsveiðin var svipuð og verið hefur, en stórlaxahlutfallið var hátt eins og svo víða, „60 prósent eru tveggja ára laxar og það var mikið af stórlaxi,“ sagði Valgarður.

Veiði er nú lokið í Vatnsá, lauk í morgun en ekki 20.október eins og stundum í gegnum tíðina. VoV var á vettvangi og getur tekið undir að það er alveg kominn tími! Laxinn paraður um allt og allt að gerast í bælasmíði ljósaskiptunum. VoV landaði síðasta laxinum þetta árið, 84 cm hrygnu og eins og sjá má af myndinni er hún svo legin og tilbúin að það var eiginlega angist að berjast við hana og hrekkja hana með þessum hætti. Hins vegar lenti VoV í „veiðiframhaldssögu“, setti í og missti þrjá laxa í Frúarhyl sem voru; tveir um það bil meterinn, sá þriðji vel ríflega 90 cm….þetta var veiðisaga sem þarf að skrifa og eflaust verður hún skrifuð.

Lokalaxinn úr Vatnsá í sumar, 84 cm hrygna - Mynd Guðmundur Guðjónsson
Lokalaxinn úr Vatnsá í sumar, 84 cm hrygna og eins og sjá má er alveg kominn tími til að gefa þessum greyjum frið…biðjumst velvirðingar á vatnsdropum á linsu…  – Mynd Guðmundur Guðjónsson

En lokatala úr ánni er 229 laxar sem er mun betra en í fyrra. Silungar, sem nær allir eru sjógengnir eða staðbundir urriðar eru 91. Vatnsá er krúttleg lítil á og ekki þekkt fyrir stórlaxa, utan að af og til veiðast þar stórir fiskar. En í ár er hún góð lýsing á fleiri ám, stórlaxahlutfallið var magnað: Af 229 löxum var 51 lax sem mældist 79 til 104 cm. Stærstir voru tveir, 102 og 104 cm. Sextán laxar voru á bilinu 90 til 104 cm. Margir voru á bilinu 70 til 79 cm, þ.e.a.s. yfir sleppiskyldustærðinni. Þetta eru magnaðar tölur úr ekki stærri einingu en Vatnsá er.