Nú á dögunum var gerður samningur um leigu á Skjálfandafljóti frá Barnafossi og niður að sjó. Gerður var tvískiptur samningur um ána, annarsvegar við Hörpu Hlín Þórðardóttur og Stefán Sigurðsson sem eiga og reka veiðiþjónustuna Iceland Outfitters, og hins vegar áframhaldandi samningur við hóp veiðimanna sem haldið hefur tryggð við ána í áratugi.

Harpa sagði í samtali við VoV að Iceland Outfitters myndu sjá um að selja veiðileyfi á opnum markaði og sjá megi lausa daga og verð á vefsölunni þeirra veidileyfi.io „Verið er að vinna í gistimöguleikum á svæðinu fyrir fljótið en veiðihús hefur ekki fylgt veiðinni hingað til,“ sagði Harpa ennfremur.

Skjálfandafljót
Barnafellsbreiða er einn besti veiðistaður Fljótsins. Mynd -gg.

Í júní eru 6 laxastangir en svo bætist ein stöng við í júlí og út tímabilið. Laxveiðinni er skipt í fjögur svæði, þrjú tveggja stanga svæði og svo Barnafell sem veitt er með einni stöng. Veiðileyfi eru seld frá morgni til kvölds, 2 stangir saman, nema á Barnafelli, þar sem hægt er að kaupa hálfan dag.  Meðalveiði í fljótinu er í kringum 600 laxar. Í fyrra veiddust þó aðeins 404 laxar og bar veiðin keim af smálaxaleysi eins og svo víða annars staðar. Bestu sumrin  hin seinni ár voru 2004 með 932 laxa, 2007 með 747 laxa og 2011 með 727 laxa. Þá var ágætis veiði 2015 er 670 laxar komu á land.

Skjálfandafljót
Glæsilegur veiðistaður í Skjálfandafljóti. Mynd -gg.

Fljótið er oft skolað og því ekki hömlur á hvaða agn er leyft. Hins vegar hafa ýmsir tekið uppá því að sanna fyrir sjálfum sér og öðrum að hægt er að veiða laxinn í Fljótinu þó að það sé verulega skolað. En allt agn er leyfilegt og daglegur kvóti er 6 laxar á dag. Veiðimenn eru þó hvattir til að sleppa stórlaxi, yfir 75 cm.

Iceland Outfitters selur einnig stangir á silungasvæði Skjálfandafljóts en svæðinu eru fjögur, tvö fyrir neðan brú og tvö ofan brúar. Góð veiði er á þessum svæðum, bæði sjóbleikja og sjóbirtingur, auk þess sem staðbundinn silungur finnst einnig.