Hvort sem það er hlýju veðurfari um að kenna eða einhverju öðru, þá eru díalskarfar að gera sig heimakomna á veiðivötnum og ám nú í vetur. Talsvert magn, en á þessum árstíma er skarfurinn vanur að vera úti á sjó.

Jón Kristjánsson fiskifræðingur vakti athygli á þessu á spjallsvæði stangaveiðimanna á FB, en hann sagðist hafa séð allt að tuttugu skarfa í einu á Elliðavatni. Birtir hann með mynd af hólmanum í vatninu sem liggur nærri Vatnsendabakkanum. Sitja þar nokkrir messandi skarfar.

Það vill svo til að fleiri hafa séð skarfa víðar á ám og vötnum í vetur, t.d. hafa leigutakar Laxár í Kjós séð þá í „tugatali“ á ánni og nokkrir hafa einnig sést á Laxá í Leirársveit og ristjóri sá tvo á flugi upp með Úlfarsá um helgina.

Nánast allir þessir skarfar eru dílaskarfar og er algengt að ungir dílaskarfar séu á veiðiám og vötnum um og uppúr hásumri og fram á haust, en þess utan hefur skarfurinn hingað til verið talinn alger sjófugl. Hvað hann er að vilja uppá dekk um hávetur hlýtur að liggja í þeim aðstæðum sem lengst af hafa verið í vetur, þ.e.a.s. yfirleitt hefur verið hlýtt í veðri og ár og vötn að mestu auð, þ.e. íslaus. Elliðavatn er smekkfullt af silungi, stórum sem smáum og skarfurinn er fjarri því eingöngu í smásilungi, hann ræður við að veiða og gleypa heila allt að 6-7 punda laxa. Sama erindi á hann á laxveiðiár og hann er stórtækur veiðigarpur sem er sjaldan vinsæll meðal veiðiréttareigenda og leigutaka þegar þeir sjást sem stakir fuglar að sumarlagi við árnar og vötnin….hvað þá í tugatali um hávetur.

Myndina að ofan tók Pétur Alan Guðmundsson við Hróarslæk síðast liðinn vetur. Fleiri myndir verða birtar úr þessari syrpu fljótlega….