Rjúpubók Dúa Landmark: Viðhorf og hefðir

Rjúpa á heiði. Mynd Dúi Landmark.

VoV er stangaveiðivefur, en við höfum áður gefið pláss undir bækur um skotveiði, enda stundar fjöldi stangaveiðimanna skotveiði. Ekki verður undan því vikist þegar jafn glæsileg bók og bók Dúa Landmark, Gengið til rjúpna, hefur litið dagsins ljós. Hér birtum við kafla úr bókinni með leyfi höfundar og útgefanda

Gengið til rjúpna
-Viðhorf bæði veiðimanna og almennings til rjúpnaveiða eiga sér sögulegar og menningarlegar rætur sem gaman getur verið að velta fyrir sér í okkar íslenska samhengi, og full ástæða er til að kafa aðeins ofan í þau mál. Ég bið lesandann að sýna mér þolinmæði ef honum finnst ég fara í allar áttir, en fyrir því er góð ástæða, allt tengist á einn eða annan hátt þegar betur er að gáð, rjúpan á sér stóran sess í okkar íslensku þjóðarsál.
Viðhorf okkar veiðimanna til veiða mótast gjarnan af því sem við höfum lært af umhverfi okkar, eldri veiðimönnum og veiðifélögum. Við bætum síðan við í framhaldinu með okkar eigin reynslu. Viðhorf íslenskra skotveiðimanna hafa mikið breyst síðustu ár, sérstaklega þeirra yngri, og til hins betra að mati þess sem þetta skrifar. Ef við höldum okkur einungis við fuglaveiðar, þá eru evrópskar veiðihefðir og viðhorf á meginlandinu um margt ólík þeim sem ríkt hafa hér á Íslandi. Bandaríkjamenn eru mikil veiðiþjóð og óhætt að segja að þeirra nálgun og viðhorf til veiða hafi haft talsverð áhrif á veiðimenningu Íslendinga frá seinni heimsstyrjöld. Í einfaldaðri mynd má segja að íslensk veiðimenning í dag sé blanda af báðum heimum ásamt gamla íslenska upplegginu. Og hvað skyldi það nú vera þegar kemur að rjúpnaveiðum? Lykilorðið þar er mataröflun, það var verið að fæða munna og seinna meir afla tekna, ekki stunda sport. Það viðhorf sem átti fyllilega rétt á sér á sínum tíma hefur þó góðu heilli verið víkjandi enda stuðlaði það ekki að sjálfbærum rjúpnaveiðum til framtíðar.
Dúi Landmark
Aðstæður hafa snarbreyst og grunnhugsunin snýst nú um sjálfbærar veiðar og gæði, ekki magn. Rjúpnaveiðikonan eða maðurinn sem er 35 ára í dag og hefur aldrei þurft að veiða sér til matar átti sér langafa sem fæddist um aldamótin 1900. Sem unglingur var hann gerður út af örkinni frá sínum heimabæ eða sem vinnumaður til að veiða rjúpu til að selja. Salan var mikil búbót fyrir marga bændur og þótt verðið fyrir hverja rjúpu væri ekki hátt mátti hafa ágætt upp úr veiðunum ef vel gekk, jafnvel grynnka á skuldinni hjá kaupmanninum. Raunveruleiki þessa veiðimanns var óralangt frá því sem við þekkjum. Hann hafði ekki vatnsþétta gönguskó, vandaðan útivistarfatnað, GPS-tæki og orkudrykki. Hann var ljónheppinn ef hann átti stígvél. Hann ók ekki landshluta á milli með fjórhjól í eftirdragi, hans veiðiferð byrjaði á bæjarhlaðinu. Og hann tók klárlega ekki sjálfu af sér með aflann uppi á fjallstoppi og póstaði á samfélagsmiðlum. Hann var fjarri því að vera sportveiðimaður, hans takmark var fyrst og fremst að ná sem flestum rjúpum í sem fæstum skotum. Skot voru dýr og byssurnar misgóðar eins og gefur að skilja. Það þótti engan veginn verjandi að eyða heilu skoti á einn fugl, helst varð að ná þremur eða fleirum í skoti.
Og ekki hafa margir verið að æfa sig á því að skjóta á flugi þótt einhverjir hafi líklega látið freistast. Þessi veiðimaður stundaði slíkar atvinnurjúpnaveiðar í nokkur ár að vetrarlagi þangað til hann hleypti heimdraganum og stofnaði eigin fjölskyldu. Hann sagði börnum sínum sögur af veiðinni og þá helst sögur af því þegar mjög vel veiddist. Börnin og barnabörnin erfðu viðhorf hans til rjúpnaveiða. Viðhorf sem voru góð og gild á sínum tíma og fluttust á milli kynslóða í þjóðfélagi sem var að breytast á ljóshraða tuttugustu aldarinnar. Og þau viðhorf lifa ennþá sums staðar við aðstæður sem krefjast þó breyttra viðmiða. Enda er ekki svo langt síðan þessar atvinnuveiðar mótuðu viðhorf komandi kynslóða til rjúpnaveiða. Og þetta sama viðhorf setti mark sitt á allar veiðar, magnið umfram gæðin. Enda ekki skrýtið, lífsbaráttan var hörð og það þurfti að hafa allar klær úti til að ná í mat, ekki var í boði að panta pitsu.
Ég var eitt sinn í dagslok af að koma af fjalli, hafði verið við veiðar á víðfeðmum heiðum Austurlands. Var ekki vel kunnugur á þessum slóðum og átti ekkert GPS-tæki ennþá, kom því talsvert sunnar niður en til stóð. Ekki voru farsímar orðnir svo algengir á þessum tíma og því gekk ég niður að næsta bæ og spurði hvort ég mætti hringja til að láta vita af ferðum mínum og fá veiðifélagann til að koma á móti mér. Það var tekið að skyggja en í ljósinu inni í bænum sá ég gamlan mann sem varð áhugasamur þegar hann heyrði að ég hefði verið á rjúpnaveiðum. Hann kom hægum skrefum fram í forstofu, horfði forvitinn á mig með glampa í augum og spurði hvernig hefði gengið, greinilega vanur rjúpnaveiðimaður sjálfur frá fyrri tíð. Ég sagði honum sem var að ég væri með sjö rjúpur. Sá gamli varð hugsi, horfði á mig með örlitlum vorkunnarsvip og spurði síðan: „Skaustu mikið af feilskotum?“ Honum fannst talan líklega gefa til kynna að þarna væri ekki stórveiðimaður á ferð, sjö fuglar hefðu örugglega þótt frekar rýr árangur á hans tíð þótt ég væri alls ekki ósáttur.
Og skotanýtingin var bara alls ekki slæm hjá mér þennan daginn, það sást ekki mikið meira af fugli en þetta. Á þeim tíma sem þessi aldni veiðimaður var upp á sitt besta hefði líklega ekki þótt gott að sjá ekki meira en ég sá yfir daginn. Það er líklega eitt af því sem hefur mótað magnveiðiviðhorfið, en einhverjir stærstu toppar í rjúpnastofninum sem talið er að upp hafi komið voru á fyrri hluta tuttugustu aldar, til dæmis á árunum 1924 til 1927. Þá var einfaldlega mikið af fugli og ekki svo margir veiðimenn á ferðinni. Það var því hægt um heimatökin og margir ólust upp við það eða vöndust því að það væri eðlilegt ástand að geta veitt mjög mikið. Sem það er alls ekki.
Sportveiði sem slíkri kynnast Íslendingar fyrst á nítjándu öld og í byrjun þeirrar tuttugustu þegar breskir og evrópskir ferðalangar byrjuðu að koma til landsins í dálitlum mæli. Sumir þeirra tóku með sér byssur og veiddu sér til ánægju og dægradvalar, ekki eingöngu til að komast yfir mat. Þetta þótti heimamönnum kúnstugt athæfi en fylgdust með aðförunum af forvitni og kynntust sportveiðimennsku í fyrsta skiptið. Eftir því sem þeim Íslendingum fjölgaði sem fóru til náms erlendis á tuttugustu öldinni, margir til Skandinavíu eða Mið-Evrópu, fjölgaði einnig þeim sem kynntust öðru viðhorfi til veiða. Þeir fluttu þetta nýja viðhorf með sér til heimalandsins og fyrsta kynslóð íslenskra sportveiðimanna var komin til sögunnar.
Það er sú kynslóð sem fæðist um og upp úr 1940 og stóð að miklu leyti að stofnun landssamtaka skotveiðimanna eða SKOTVÍS á sínum tíma. Það framtak var mikið heillaskref fyrir íslenska skotveiðimenn, SKOTVÍS eru einu hagsmunasamtök skotveiðimanna á landsvísu og hafa í gegnum tíðina barist fyrir hagsmunum þeirra gagnvart stjórnvöldum.
Viðhorf almennings til rjúpnaveiða
Fyrir mér er ákveðin þversögn fólgin í því að stilla upp hópunum veiðimenn og almenningur. Því rjúpnaveiðimenn eru líka almenningur. Árin 2015–2020 gengu árlega 5.000 – 6.000 Íslendingar að meðaltali til rjúpna. Sá hópur inniheldur kannski þig, en mögulega líka gamla bekkjarsystur, samstarfskonu þína og nágrannann á stigapallinum. Rjúpnaveiðimenn eru og verða almenningur sem nýtur útivistar. Gjarnan er reynt að stilla hlutum þannig upp í almennri umræðu að þar fari einangraður hópur sem hafi það eitt á sinni stefnuskrá að skjóta sem flestar rjúpur. Svo er einfaldlega ekki og ber að hafa í huga í allri umræðu um rjúpnaveiðar. Ísland var lengi vel samfélag veiðimanna og bænda og tenging almennings við veiðar og náttúruna því sterk á sínum tíma, veiðar þóttu sjálfsagður hluti lífsins. Þess viðhorfs gætti lengi, en með nýjum kynslóðum koma fram ný viðhorf og nýjar aðstæður myndast með breyttum tímum.
Þrátt fyrir að svo margir Íslendingar stundi rjúpnaveiðar sem raun ber vitni og stór hluti þjóðarinnar sé þeim hlynntur, er hörðum áróðri gegn þeim haldið uppi af ekki ýkja stórum en oft háværum hópi og kveðjurnar til okkar eru því miður ekki alltaf fallegar. Við getum ekki stýrt því hvað aðrir segja um okkur eða rjúpnaveiðar en við getum stýrt því hvernig við högum okkur og hvaða skilaboð við sendum sem veiðimenn og veiðikonur. Þetta á jafnt við um þátttöku í samræðum um rjúpnaveiðar, umgengni á veiðislóð, skrif og myndbirtingar á samfélagsmiðlum. Myndir skipta klárlega máli þegar kemur að því að virkja og móta almenningsálitið, munum að á endanum er það almenningur sem ræður því hvort rjúpnaveiðar halda áfram í landinu eða ekki.
En til eru þeir sem eru alfarið á móti rjúpnaveiði og jafnvel allri skotveiði. Og þeirra sjónarmið eiga rétt á sér eins og önnur. Hinn stóri vandi við alla umræðu um náttúruvernd, nýtingu og veiðar er að hún fer mjög fljótt að snúast um tilfinningar og jafnvel sjálfsmynd viðkomandi. Rök og upplýsingar hafa minna að segja. Þetta gildir jafnt um veiðimenn og náttúruverndarsinna. Og þegar umræðan er tekin lengra fer hún fljótt að snúast um siðferðislegar spurningar, jafnvel heimspekilegar. Hvað sem því líður skulum við sem stundum skotveiðar hafa það hugfast að það er meiri styrkur fólginn í því að hafa almenning með sér en á móti.“