Líklega næst síðasta opnun Laxveiðiár á Íslandi (Vatnsá opnar 20.7) var opnun Sunnudalsár í Vopnafirði, en á hádegi í dag hafði verið veitt í ánni í tvo og hálfan dag. Veiði hefur verið afar lífleg.

Ingólfur Helgason hjá Streng, sem hefur með umsjón Sunnudalsár að gera, sagði að 18 laxar væru komnir á land úr ánni eftir tvo og hálfan dag, „það er mjög líflegt og laxinn víða í ánni,“ sagði Ingólfur. Sunnudalsá er þverá Hofsár og er nokkuð myndaleg að burðum. Kaldari þó en Hofsá. Áin var í fyrsta skipti seld sem ein eining í fyrra og þótti heppnast vel, 118 laxar veiddust á aðeins tvær stangir og þá eins og nú fór veiðin mjög líflega af, sem kom mönnum dálítið í opna skjöldu því að áin hefur yfirleitt verið talin síðsumarsá
Þá hefur lífleg veiði hefur verið í Selá og Hofsá síðustu daga. Smálax byrjaður að sýna sig, en stórir fiskar enn að ganga og veiðast lúsugir, m.a. 90 cm dólgar í báðum ánum.

Eins og fram hefur komið hefur gæðum landsins hvað laxagöngur og veiði verið misskipt milli landshluta. Vopnfirðingar, utan þeir sem eiga aðild að Vesturdalsá, hafa horft á nóg af vatni renna fram hjá. Selá var opnuð seinna en venjulega, afar vel veiddist en svo var áin svo gott sem hvíld í viku áður en byrjað var aftur að eiga við hana. Hofsá byrjaði fyrr og fór mjög rólega af stað. Að undanförnu hefur hins vegar verið mjög líflegt í ánni. Þessar fregnir fengust frá veiðiklúbbnum Streng sem hefur umsjón með báðum ánum.