Langadalsá
92 cm hængur úr Brúarfljóti í Langadalsá. Mynd er frá FB síðu umsjónarmanna og er titluð Sigþóri Sigurðssyni.

Ein á sem sjaldan er í umræðunni er Langadalsá í Ísafjarðardjúpi, en hún er gjöful og skemmtileg laxveiðiá. Aron Jóhannsson heldur þó úti FB síðu þar sem iðulega birtast myndir og fréttamolar. Það nýjasta nýtt á síðunni er frétt af fínni veiði að undanförnu.

Þar segir að í síðasta holli hafi veiðst 28 laxar sem er harla gott í þriggja stanga á, en veitt var í þrjá daga. Stærsti laxinn var glæsilegur 92 cm hængur sem var dreginn úr Brúarflljóti og sleppt að viðureign lokinni. Fram kemur að 107 laxar hafi þar með verið komnir á land og lax hafi sést um alla á, allt frá hyl númer 3 og upp í hyl númer 37.

Vel hefur einnig farið af stað í Laugardalsá sem er einnig drjúg laxveiðiá í Djúpinu. Nýjasta talan sem við höfum er að vísu frá 18.7 en þá voru komnir 50 laxar á land en allt síðasta sumar veiddust um 170 stykki.