Sá lang stærsti í sumar!

Atli og Hilmar með laxinn. Frekar þunnur og ábyggilega endurkomulax miðað við vöxtinn og dílana.

Lang stærsti lax sumarsins var dreginn á Nesveiðum Laxár í Aðaldal í dag. Engin smásmíði, 108 cm hrygna í Efri Grástraum, þekktur stórlaxastaður. 102 cm laxinn úr Eystri fékk því ekki lengi að vera stærsti lax sumarsins.

Engin smá skepna, 108 cm!

Veiðimaðurinn var Atli Bjarnason. Þetta kemur fram á FB siðu Nesveiða. Laxinn var sem sagt 108 cm og veginn 12,3 kg. Nesmenn segja 27 pund, en samkvæmt gamla kvarðanum er hann tæp 25 pund. Ekki að það skipti risamáli. Auðvitað engu máli hvort menn nota gamla íslena eða „libsin“, 108 cm eru 108 cm. Laxinn tók kvart tommu grænan Frigga. Önnur falleg saga samofin þessari er að leiðsögumaður Atla var Hilmar Þór Árnason. Aðeins 15 ára gamall og í fyrsta skipti, fyrsta vakt, aleinn með viðskiptavini. Óhætt að segja að Hilmar fari vel af stað.