Ekki vantar sverleikann, fiskur í Grænavatni greinilega í góður fæðumálum.
Enn berast fregnir af Veiðivötnum á Landmannaafrétti. Stangaveiði lauk þar að vísu 19.ágúst en hefð hefur verið fyrir netaveiðum bænda fram í september. Gjarnan er þá eitthvað veitt á stöng líka, en veiðitölur þessar koma ekki fram í lokaveiðiskýrslum hjá veidivotn.is. Þar veiddist nú tröll af urriða, einn sá stærsti í sumar.
Það var sá mikli silungaskaðvaldur Örn Hjálmarsson, kenndur við Útilíf, sem dró ferlíkið í Grænavatni. Urriðinn vóg 5,4 kíló, eða tæp 11 pund. Stærsti fiskur stangaveiðitímans veiddist einnig í grænavatni, sá var veginn, afar nákvæmlega, 13,56 pund. Annars var heildarveiðin í Veiðivötnum að þessu sinni 17570 fiskar, 7936 urriðar og 9634 bleikjur. Þetta var ekki með betri sumrum þar efra þótt mörg ógleymanleg veiðisagan hafi fæðst þar sumarið 2020.