Hofsá opnuð, lax víða í ánni

Fyrsti laxinn úr Hofsá 2019, glæsileg 83 cm hrygna úr Efri fossi.

Hofsá opnaði í morgun í fallegu veðri og var sjón að sjá ána eftir allar fréttirnar af vatnsleysi. Gullfallegt vatn í ánni, á meðan að áin í næsta dal, Vesturdalsá er að skrælna upp. En það var líf í Hofsá þó að stundum hafi verið fjörugra í opnun, en það skiptir kannski einhverju máli að áin opnar nú nokkrum dögum fyrr en verið hefur.

Fluagn var í morgunsárið, Árni Steinsson og Ari Þórðarson. Mynd Ingólfur Helgason.

VoV var á bakkanum og fylgdi Ara Þórðarsyni og Árna Steinssyni sem áttu svæði 3 og 4. Margir hyljir á því svæði og að sögn þeirra félaga gildir það í Hofsá á þessum tíma að fara hratt yfir og leita að fiski. Það gerðu þeir með því að annar fór með yfirborðsflugu og hinn með litla flugu á kónhaus til að veiða dýpra. Er skemmst frá að segja að þeir félagar höfðu ekki lukkuna í farteskinu. Hins vegar urðu menn varir við lax víða í ánni og meðal þess sem VoV frétti var 83 cm hrygna dregin í Efri Fossi, lax misstur í Lindinni og í Öskumelshyl gerði vænn lax sér dælt við hitsaða smáflugu og elti hana í bræði fjórum sinnum áður en áhuginn þvarr.

Síðan reynum við að ná tölu í kvöld. Vesturdalsá er að tæmast af vatni, en sem betur fer er engin formleg opnun þar í bráð. Selá opnar hins vegar laugardaginn 29.júní. Þar er gott vatn og orðinn hálfur mánuður eða meira síðan að fyrstu laxarnir sáust í ánni. Það gæti því eitthvað skemmtilegt gerst á Selárbökkum á laugardaginn.