Metfiskur var ekki metfiskur

Jónas Geirsson með 98 cm lax úr Breiðunni að norðan í Blöndu fyrr í dag.

Ekki fékk metfiskurinn í Fnjóská að vera metfiskur lengi. Reyndar var hann ekki metfiskur því í gærkvöldi veiddist 98 cm lax í Blöndu sem við höfðum ekki haft spurnir af. Í dag veiddist síðan annar 98 cm í Blöndu. Hlutirnir gerast því hratt og það hlýtur að styttast í meterinn.

Eins og fram kom í uppfærðri frétt um Fnjóskárlaxinn þá lét Þorsteinn Hafþórsson okkur vita um Blöndulaxana. Auk þeirra hefur komið 94 cm úr Blöndu, lax sem var um tíma sá stærsti. En sá stóri hefði hvort eð er aðeins verið metlaxjöfnun, því holl númer tvö í Miðfjarðará náði laxi sem var 97 cm, rétt eins og sá flotti úr Fnjóská. Sem sagt, hvenær fellur meterinn?