Arnaldur Kári Sigurðsson, Nýja brú, Straumfjarðará
Arnaldur Kári Sigurðsson að sleppa glæsilegri hrygnu við Nýju brú. Mynd Ástþór Jóhannsson.

Veiði hófst í Straumfjarðará í fyrradagsmorgun (20.6) en slagveður litaði ána og hleypti að auki slýreki af stað þannig að opnunardagurinn var á rórri nótunum. Í gær voru skilyrði hins vegar mun betri og þá fóru hlutir að gerast.

Ástþór Jóhannsson í Dal, leigutaki árinnar ásamt Katrínu Ævarsdóttur konu hans, sendi VoV skýrslu um opnunina 2017: „Það var heldur blautt og hvasst hjá okkur í gær (þriðjudaginn). Eftir nokkuð langan þurrkakafla her á Nesinuu fór að rigna hressilega, einmitt að morgni opnunardagsins.

Loch Ness skrýmslið að athafna sig í ánni.

Það var vitað að lax væri genginn því hann hafði sést á helstu vorstöðum dagana á undan. Eins og undanfarin ár þá hafa árleigutakar opnað ána ásamt félögum sínum og fjölskyldu.Í vatnsveðrinu fór allt í „kakó“ og slýtætlur svo sjálfur opnunardagurinn var rólegri en vænst var.
Í morgun fór hinsvegar að draga til tíðinda, þó án alls hamagangs og veiddar tvær stangir af þremur. Sett var í fiska bæði í Sjávarfossi og við Nýjubrú. Einn kom á í Sjávarfossi, greinilega ógnarstór. Lét sig hverfa eftir 20 mínútna baráttu um strengi og breiður. Það náðist þó mynd í „Loch Ness gæðum“ af dýrinu og af hlutföllunum má sjá að þar fór myndarfiskur.
Stærstu fiskarnir sem veiddust voru hinsvegar hrygnur 85 og 90 cm er tóku sígildar og virðulegar flugur, Thunder & Lighting, einkrækta stórlaxaflugu sem ávallt virkar vel í slýreki og fallandi vatni og Skrögg í formi lítillar túpu til þess að vinna á vatnsflaumnum.

Slegist við lax í þungbúnu veðri í Sjávarfossi.

Níu ára aðstoðarmaður á annarri stönginni, Arnaldur Kári Sigurðsson, hafði á orði eftir að hafa hjálpað til við að sleppa einni stórhrygnu aftur út í strauminn; „Það er gaman að sleppa laxinum aftur í ána.“ Gamall veiðimaður á sjötugsaldri var nánast hrærður yfir þroska þessa unga félaga síns, sem bar sig vel við að sleppa fiskinum eins og sést á meðfylgjandi mynd, rétt lyft upp úr vatninu, eitt augnablik, í eina myndasessjón og svo kvaddi hún og synti frísklega út í strauminn aftur.
En hér í Straumfjarðará er veiði sem sé hafin þessa vertíðina og lofar góðu með framhaldið næstu daga.