Sérstök hátíðaropnun Elliðaána í fyrramálið

Elliðaárnar; Veitt í SJávarfossi. Mynd Heimir Óskarsson.

Elliðaárnar verða opnaðar í fyrramálið og er meiri stemming fyrir því nú en oft áður þar sem um er að ræða 80 opnun sem SVFR stendur fyrir. Hefðin sem Besti flokkurinn kom á á sínum tíma, að „Reykvíkingur ársins“ opni ána er haldið áfram, en hver sá er verður tilkynnt í fyrramálið.

SVFR nefnir þessa opnun „sérstaka hátíðaropnun“, þar sem félagið hefur með margvíslegum hætti á þessu ári haldið upp á 80 ára afmæli félagsins. Í fréttatilkynningu sem kom frá SVFR í dag segir m.a.: „Heiðurinn af opnun ánna er í höndum Reykvíkings ársins 2019. Borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs munu í framhaldi renna fyrir lax. Laxinn er þegar genginn í árnar og má reikna með líflegri stemningu við bakkann í fyrramálið. Það verður spennandi að sjá við hvaða veiðistað í Elliðaánum fyrsti laxinn kemur upp en laxinn er sennilega sá lax sem mest er myndaður á landinu á hverju ári.

Opnunin í ár er sú 80. í sögu félagsins en félagið heldur uppá 80 ára afmæli sitt í ár. Það voru frumkvöðlar og framsýnir félagar sem stofnuðu félagið 17. maí 1939. Þeir höfðu áhyggjur af framtíð laxveiði í Elliðaánum og vildu efla stangaveiðiíþróttina á Íslandi.“