Formaðurinn ekki lengi að landa þeim fyrsta

Guðrún með þann fyrsta úr Norðurá á þessari vertíð, fallegan 74 cm lax!

Veiði hófst í Norðurá í morgun klukkan átta og verður að segja að skilyrði verði varla verri. Þó var búið að setja í lax tuttugu mínútum seinna og var honum síðan snarlega landað og sleppt. Þetta var 74 cm silfurbjartur lax sem að Guðrún Sigurjónsdóttir formaður Veiðifélags Norðurár veiddi af Eyrinni svokölluðu, neðan við Laxfoss.

Laxinn búinn að taka „hitsaða“ Hauginn hjá Guðrúnu og atburðarrásin fer í gang. Allar myndir -gg.
Loftköst og læti.
Og meiri loftköst og læti….

Áin var 40 rúmmetrar við opnun í fyrra, 3,5 núna, áin eins á síðsumarsdegi eftir endalausa þurrka. Að auki stífur strekkingur að norðan niður dalinn og mikil vindkæling. „Þetta kemur ekki í veg fyrir að fiskur taki þegar hann er nýr og í göngu, verra væri ef að svona lagað lenti inn á hausti með laxinn orðinn leginn. Þá myndi mikið til taka fyrir tökur. En þetta gerir veiðiskapinn miklu mun meira krefjandi, þannig verður að breyta útaf fyrirkomulagi þar sem stórir vorveiðistaðir eru nú svo grunnir að þeir halda ekki fiski, t.d. Brotið og Stokkhylsbrot. Þá þýðir ekkert að nota annað en flotlínur og smáar flugur. Laxinn sem Guðrún veiddi var tekinn á „hitsaðan“ Haug og er það mikið afrek við þessar aðstæður. Þeir taka þá oft grannt og mér hlýnaði mikið þegar ég sá að laxinn var kominn í háfinn,“ sagði Einar Sigfússon umsjónarmaður Norðurár í samtali við VoV á árbakkanum í morgun. Við fylgjumst síðan náið með og reynum að koma með framvindufrétt í kvöld, en í fyrramálið opna bæði Þverá og Blanda.