Gylfi Þór Sigurðsson, EInar Sigfússon, opnun Norðurár
Gylfi Þór Sigurðsson með laxinn sinn, Einar Sigfússon er ánægður með gang mála. Mynd -gg.

Gylfi Þór Sigurðsson var sérstakur gestur Veiðifélags Norðurár er áin var opnuð klukkan ellefu í morgun. Gylfi missti fyrst vænan lax eftir harða glímu en landaði laxi númer tvö. Mjög líflegt var bæði á Brotinu og Eyrinn, en takan grönn.

Norðurá, Bryggjur
Fyrri laxinn búinn að teyma alla niður undir Bryggjur. Stuttu seinna var hann af. Mynd -gg.

Gylfi Þór setti í fyrri laxinn neðarlega á Brotinu, svo nærri skottinu að hann missti laxinn niður og lét laxinn elta sig allar götur niður á Bryggjur. Þar tók við hörð glíma þar sem laxinn nýtti sér strauminn til hins ýtrasta. Þetta var falleg ríflega 80 cm hrygna en flugan losnaði um það bil þegar átti að sporðtaka laxinn. Gylfi, sem er ekki reyndur í laxveiði þó að hann hafi stundað ýmsan veiðiskap, sagði að þetta hefði samt verið gaman, hann hefði sleppt laxinum hvort eð var.

Norðurá, Brotið, Gylfi Þór Sigurðsson
Taka tvö. Gylfi búinn að setja lax á Brotinu. Mynd -gg.

Það var þá ekki annað að gera en að reyna aftur og eftir fáar mínútur var aftur lax á, sá tók einnig neðarlega á Brotinu. Að þessu sinni bakkaði Gylfi upp að Skerjum og landaði laxinum þar eins og venja er til. Um tíma var þó all löng lína úti og tvísýnt hvað gera mætti ef að laxinn tæki upp á því að leita niður eftir. En allt fór vel og laxinum var landað. Einar Sigufússon, sölustjóri Norðurár og leiðsögumaður Gylfa, brá málbandi á hrygnuna og sagði síðan stundarhátt: „87 sentimetrar.“

Norðurá, Eyrin
Það var líka líf og fjör á Eyrinni, en á meðan VoV dokaði við var sett þar í fjóra laxa, en þeir tóku grannt og sluppu allir. Mynd -gg.

Allt hafði þetta gengið eftir á hálfri annarri klukkustund, en á hinum bakkanum, á Eyrinni, voru eiginkona, sonur og sonarsonur Einars að veiðum. Augljóslega var nóg af laxi þeim megin því sonarsonurinn setti í fjóra laxa sem allir sluppu eftir stuttar viðureignir. Það var því lífleg opnun í Norðurá þó að veiðitölur hafi oft verið hærri. En það er spurt að leikslokum og VoV mun fylgjast með gangi mála.