Eldvatn
Vígalegur birtingur úr Eldvatni, tekinn í lokahollinu. Myndin er af FB síðu Eldvatns.

Sjóbirtingsveiði í Vestur Skaftafellssýslu hefur verið einstaklega góð bæði í vor og haust. Flottar tölur. Lokatölur eru ekki mikið á lausu sem stendur, en sú eina sem við höfum segir frá metveiði í Eldvatni. Ekki kæmi okkur á óvart ef að fleiri mettölur bærust af svæðinu, en sjáum til með það.

Eldvatn
Flottur fiskur úr lokaholli Eldvatns. Myndin er af FB síðu Eldvatns.

Við heyrðum í Jóni Hrafni Karlssyni, einum af leigutökum Eldvatns í Meðallandi og hann var að vonum kátur með gang mála í ánni í sumar, en hann hefur leigt ána síðustu árin og horft uppá sívaxandi veiði. Uppsveiflan í birtingi er um alla sýslunna og eflaust í þeirri eystri líka. En Jón Hrafn sagði:  „Síðasta veiðifréttin úr Eldvatni þetta árið er svohljóðandi. Myndirnar eru af Finnboga Hannessyni , Þórði Guðmundssyni og Erlingi Hannessyni með sjóbirtinga sem þeir lönduðu í Unubót nú í lok tímabils.

Veiðin þetta árið var engu lík , 711 fiskar á land. Síðustu ár hafa verið dregnir á land 10-13 fiskar sem eru stærri en 80cm , nú í ár voru þeir 24 sjóbirtingarnir sem voru lengri en 80cm , þar af voru 5 risar 90-95cm.

Sem fyrr segir ætlum við að reyna að grafa upp statistík úr fleiri sjóbirtingsám á þessum slóðum, t.d. Geirlandsá, en þaðan bárust á stundum fádæma magnaðar aflafréttir af hollum sem voru að veiða marga tugi fiska þrátt fyrir að 1-2 vaktir væru óveiðandi sökum flóða.