Hulunni svipt af leynivatninu

Frá Sauðafellsvatni, en á vefsíðunni saudafellsvatn.is má skoða fleiri myndir.

Hafin er sala veiðileyfa í Sauðafellsvatn sem er staðsett við Heklurætur. Vatninu má lýsa sem sannkölluðu leynivatni, en um árabil hafa fáir fengið að veiða þar og fregnir sem þaðan hafa borist oftar en ekki jaðrar við ævintýri, ef ekki beinlínis haugalygi. En það er engu logið með þetta vatn.

Sauðafellsvatn var fisklaust þangað til árið 1993 þegar heimamenn slepptu í það urriðaseiðum af Grenlækjarstofni. Þó að ekkert að- eða frárennsli sé að sjá, og þar með augljós hrygningar- og búsvæði fyrir urriða, þá hefur komist þarna upp sterkur urriðastofn og eru stórir fiskar einkar tíðir í aflanum. Allt eða 10-12 punda drjólar.

Veitt er á fimm stangir í vatninu og eingöngu fluga leyfð. Veiðifélag Landmannaafréttar setti nýverið upp vefsíðuna saudafellsvatn.is og þar er hægt að versla sér veiðileyfi og er enginn vafi að mörgum mun þykja forvitnilegt að skoða þetta fyrrum leynivatn.