Þegar talað er um veiðivötn á Reykjanesskaga dettur mörgum ekkert annað til hugar en Hlíðarvatn í Selvogi. En sannast sagna eru tvö önnur mjög gjöful vötn á svæðinu, Kleifarvatn og Djúpavatn. Hér segir Vilborg Reynisdóttir formaður SVH frá þessum minna þekktu perlum.

Stangaveiðifélag Hafnarfjarðar hefur verið með Kleifarvatn og Djúpavatn um árabil. Kleifarvatn er þekktara vatnið, stórt, djúpt og dulúðlegt, bæði hvað varðar umhverfi þess, svo og þá furðu að vatnið hefur átt það til að snarminnka og svo aukast aftur. Þar hafa veiðst gríðarlega vænir urriðar, en urriða hefur all nokkrum sinnum verið sleppt i vatnið. Bleikja hefur verið þar einnig. Um vatnið segir Vilborg: „Helstu veiðistaðir í vatninu eru Syðri Stapi, Stefánshöfði, Lambatangi, Hrossabrekkur og Lambhagi.SVH er að rækta vatnið upp með árlegum seiðasleppingum.“

Kleifarvatn, vötn á Reykjanesi.
Veiðimaður með fallega veiði úr Kleifarvatni, nokkra urriða sem tóku svartan Nobbler. Mynd Einar Falur Ingólfsson.

Vinsælt er að skreppa í vatnið snemma á vorin, gjarnan nærri ljósaskiptum og geta menn þá lent í góðum tökuskotum. Bæði á flugu og spón, en þá er það urriðinn sem gefur sig. Af flugum þá hefur svartur Nobbler reynst sérstaklega vel, en einnig Black Ghost. Oftar en ekki eru það straumflugurnar sem gefa best. Vatnið getur þó verið seint til í köldum vorum.  Makríll er bannaður svo og veiði úr báti, en makrílbannið virðast margir ekki taka alvarlega.

Djúpavatn, vötn á Reykjanesi, silungsveiði
Frá Djúpavatni. Mynd Vilborg Reynis.

Vilborg sagði að sér þætti fremur óþægilegt að tala mikið um Djúpavatn því að það virtist vera víðtækur misskilningur að það væri hluti af Veiðikortinu, í það minnsta hafa oft komið upp atvik þar sem menn kæmu þar til veiða og framvísuðu Veiðikortinu máli sínu til stuðnings. Hins vegar er slíkt auðvitað ekkert annað en fyrirsláttur því hvergi kemur fram í bæklingi Veiðikortsins að Djúpavatn sé eitt af vötnunum á Veiðikortinu. Hér er því um grímulausan veiðiþjófnað að ræða. Af þessum sökum hefur gæsla verið aukin við vatnið, enda eru leyfi fyrst og fremst seld til félagsmanna SVH og það sem út af stendur fer síðan á almennan markað hjá leyfi.is.

Vilborg segir: „Við erum líka að rækta þetta vatn upp með seiðasleppingum. Við sleppum líka regnbogasilungi í vatnið. Þetta er fjölskyldusvæði og það þarf að vera nóg fyrir alla. Annars er vatnið sjálfbært með bæði urriða og bleikju. Stærsti urriðinn sem veiðst hefur var 11 pund, en hann er til í öllum stærðum. Bleikjan er frá því að vera smá og upp í 3 pund. Það veiðist víða í vatninu. Enginn einn staður öðrum betri, en flestir dunda sér bara við ströndina framan við veiðihúsið. Til að gefa hugmynd, þá voru skráðir um 500 silungar úr vatninu í fyrra. Um helmingurinn veiddur á flugu en restin á maðk og spón. Sterkustu flugurnar hafa verið Peacock, Alma Rún og Krókurinn.“

Meira má sjá og athuga á vefsíðu Stangaveiðifélags Hafnarfjarðar, www.svh.is